1.1.0001 05.10.09

Rannsóknarstofa Mannvits fær tvo styrki úr sjóði Íbúðalánasjóðs

Nú í september samþykkti stjórn Íbúðalánasjóðs, ÍLS, að veita 19 styrki til tækninýjunga og annarra umbóta í byggingariðnaði, samtals að fjárhæð 19,3 millj. kr. Rannsóknarstofa Mannvits hlaut tvo styrki en alls bárust 53 styrkumsóknir. Verkefnin sem hlutu styrk eru eftirfarandi:

Smásjárgreining á ástandi steypu
Markmið verkefnisins er að gera nákvæma skemmdagreiningu á algengum skemmdum sem sjást í íslenskri steypu. Þetta verður gert með því að skoða upphaflegar steypuuppskriftir og í framhaldinu nota smásjárbúnað og annan búnað á rannsóknarstofu Mannvits til að greina orsök steypuskemmdanna. Gagnsemi er að með réttum greiningum getum við veitt ráðleggingar um réttar aðferðir, rétt efni til viðgerða og ekki síður að forðast það að sams konar skemmdir komi aftur eftir viðgerð. Þetta er mikilvæg trygging til að bæta endingu steinsteypu.

Lamineraðar vikureiningar – hluti 2
Árið 2008 fékkst styrkur frá ÍLS þar sem m.a. voru gerðar tilraunir með að gera vikurkornin vatnsfráhrindandi og þróun vikursteypu sem notuð yrði til framleiðslu á húseiningum. Verkefnið snýst um að hanna vikurblokkir sem yrðu sagaðar niður í mismunandi plötuþykktir og síðan límdar saman (lamineraðar) með ýmsum gerðum af nyloni og stálnetum. Hugmyndafræðin er sú sama og að baki límtré (Kerto). Þessari rannsókn (verkhluti 1) mun ljúka haustið 2009 þar sem lokaafurð verða prófanir á ýmsum eiginleikum samlímdra eininga.

Í verkhluta 2 er gert ráð fyrir að framleiða stærri tilraunaeiningar (prototypes) til frekari prófana, einskonar sýnishorn af verksmiðju. Nú er komið að því að þróa framleiðsluaðferð og framleiða stærri einingar til frekari prófana. Með þeim prófunum er t.d. átt við álagspróf raunþversniða, mælingar á einangrunargildi og brunaþoli o.fl. að teknu tilliti til byggingarreglugerðar.

Verkefnið er samstarfsverkefni eftirfarandi þriggja aðila: Rannsóknarstofa Mannvits hf., Spöng ehf. og Fínpússning ehf.