Áformayfirlýsing um umskipunarhöfn og olíubirgðastöð á Reyðarfirði - Mannvit.is
Frétt - 30.06.2011

Áformayfirlýsing um umskipunarhöfn og olíubirgðastöð á Reyðarfirði

Fjarðabyggð, Mannvit og eigendur jarðarinnar að Eyri við Reyðarfjörð hafa undirritað áformayfirlýsingu um umskipunarhöfn og olíubirgðastöð  í landi Eyrar við sunnanverðan Reyðarfjörð.  Frumathuganir og frumhönnun benda til þess að byggja megi landfræðilega vel staðsetta höfn í landi Eyrar og þar sé nægjanlegt undirlendi til þess að reisa olíutanka og önnur mannvirki undir þessa starfsemi. Í ljósi framanritaðs eru aðilar áformayfirlýsingar þessarar sammála um að lýsa yfir vilja til þess að málið verði skoðað áfram.
 
Í yfirlýsingunni felst að Mannvit mun áfram vinna að undirbúningi verkefnisins.  Fjarðabyggð mun koma að skipulagsmálum eins og verkinu mun vinda fram þegar framkvæmdaaðilar koma að verkinu. Eigendur jarðarinnar að Eyri munu ekki ráðstafa landinu í önnur verkefni á gildistíma yfirlýsingarinnar eða til ársloka 2015.  Aðilar áformayfirlýsingarinnar eru sammála um að framgangur verkefnisins verður kynntur íbúum sveitarfélagsins eftir því sem verkefninu fleytir fram.
 
Nánari upplýsingar veitir Haukur Óskarsson, verkefnisstjóri  haukuro@mannvit.is  farsími: 842 3333.