Álklasi stofnaður árið 2015 - Mannvit.is
Frétt - 21.07.2015

Álklasi stofnaður

Stofnaður hefur verið íslenskur Álklasi. Að baki Álklasans standa yfir 30 fyrirtæki og stofnanir sem sinna verkefnum svo sem framleiðslu, þjónustu, vinnslu og þróun á sviði sem tengist áliðnaði. Markmið Álklasans er að efla samkeppnishæfni með virðisauka fyrir þau fyrirtæki sem í Álklasanum eru og auka sýnileika, rannsóknir og nýsköpun á þessu sviði. Á meðal stofnaðila eru verkfræðistofur, vélsmiðjur, tæknifyrirtæki, málmsteypur, skipafélög, verktakafyrirtæki, fjármálastofnanir, rannsókna- og menntastofnanir, auk allra álveranna á Íslandi. Mannvit er einn stofnaðila álklasans en Mannvit er meirihlutaeigandi í HRV Engineering sem sérhæfir sig í þjónustu við áliðnaðinn.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra flutti ávarp á stofnfundi klasans sem fram fór 29.júní. Björg Ásta Þórðardóttir lögfræðingur Samtaka iðnaðarins ræddi klasasamstarf út frá samkeppnissjónarmiðum, Hannes Ottósson hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands fjallaði um klasakenningar og tækifæri sem fylgja klasasamstarfi. Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir, efnaverkfræðingur og fyrrum verkefnastjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð verður klasastjóri Álklasans.

Áliðnaðurinn sterk stoð í hagkerfi landsins

Undanfarin ár hefur byggst upp öflugur álklasi á Íslandi, sem samanstendur af orku- og áliðnaði, og nam beint framlag álklasans til landsframleiðslu nálægt 6,8% á árunum 2011 og 2012, samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ. 

Á ársfundi Samáls kom m.a. fram í máli Ragnars Guðmundssonar stjórnarformanns Samáls að íslensk álver keyptu vörur og þjónustu fyrir 25 milljarða árið 2014 af yfir 700 innlendum fyrirtækjum. Álverin framleiddu 850 þúsund tonn af áli og alls námu útflutningsverðmætin 227 milljörðum. Þá nema innlend útgjöld álvera á Íslandi um 80 milljörðum.