Ódýr hljóðvistar kreppuráð - Mannvit.is
Frétt - 25.05.2010

Ódýr hljóðvistar kreppuráð

Hljóðvistarsvið Mannvits hefur unnið að einstaklega skemmtilegu verkefni nú í vetur. Hugmyndin að verkefninu kviknaði í ljósi kreppuástandsins í þjóðfélaginu og þeirri ósk að leita að ódýrari lausnum, þar sem innlend vinna og efni eru notuð í frekara mæli en áður.

 

Í leikskólum og grunnskólum er mikil þörf fyrir góða hljóðvist, en peningarnir oft af skornum skammti,  sérstaklega nú á tímum. Því lögðust starfsmenn yfir það að finna ódýra lausn fyrir sveitarfélög sem kæmi til með að bæta hljóðvistina á þessum stöðum. Hugmyndin felst í að sveitarfélögin  noti eigið starfsfólk og vinnu til verksins en kaupi ráðgjöfina hjá Mannviti.

Nýstárleg leið til að bæta hljóðvist getur verið að hengja svokallaða „hljóðmynd“ á vegg.  Það er, áprentuð  veggmynd sem jafnframt hefur hljóðdeyfandi eiginleika.  Mannvit hefur gert tilraun með slíka lausn  í einni af starfsstöðvum sínum í Skeifunni 3 með góðum árangri.  Í leikskólum og skólum er veggjaplássið hins vegar oft notað til að hengja upp verk nemenda.  Þá kom upp sú hugmynd að tvinna saman þetta tvennt, það er að hljóðmyndin yrði verk nemenda.
Þannig var lagt af stað í tilraunaverkefni með leikskólanum Marbakka í Kópavogi. Til að útbúa „hljóðmynd“ þarf dúk til að prenta eða mála myndina á, nota þarf blek eða málningu sem hentar á dúkinn og efni til að smíða ramma. Einnig er hægt að nota annars konar efni eins og striga eða léreft.  Fyrirtækið Enso flytur inn og selur dúk og málningu sem hentar vel fyrir hljóðmyndir og gaf lista og málningu í verkefnið. Dúkurinn sem notaður var er afgangsefni frá einum starfsmanni Mannvits.

 

Verkefnið spannst inn á fleiri svið fyrirtækisins þar sem margir verkfræðingar fyrirtækisins hafa einnig iðnmenntun að baki og tóku nokkrir þeirra þátt í því að smíða rammana.  Starfsmaður frá Enso kom og leiðbeindi þeim við ísetningu dúksins.

Leikskólabörnin á Marbakka skreyttu svo hljóðdúkinn með málningu og útkoman var þessi líka flottu listaverk eftir ungu listamennina. Þannig var komist hjá því að hljóðvistarlausnin liti stofnanalega út og leikskólinn hélt sínu yfirbragði.

Hlutverk Mannvits í verkefnum sem þessum væri því að koma í heimsókn í skóla og meta þörfina á aðgerðum og kanna hvort þessi lausn dugi. Meta hversu stór myndin þarf að vera til að deyfa óm/hávaða nægilega mikið og hvar sé best að staðsetja hana. Sérfræðingar Mannvits leiðbeina svo við gerð hljóðmyndanna sem málaðar eru, hvernig nota skuli málninguna, hversu þunn hún þarf að vera og svo framvegis.

Þessa aðferð er einnig hægt að nota með áprentuðum myndum sbr. áðurnefnda mynd í einni af starfsstöðvum okka,r en einnig mætti notast við hana á heimilum þar sem hljóðvistin er ekki nægilega góð og væri þá hægt að prenta mynd af fjölskyldumeðlimum, uppáhaldslandslagi eða öðru listaverki. Þar væri komin lausn sem er falleg skreyting og stofuprýði um leið.

Glymjandi og bergmál getur verið vandamál í öllum tegundum húsnæðis og oft eru slík vandamál leyst með hefðbundnum lausnum eins og kerfisloftum eða öðrum hljóðdeyfandi efnum í loft eða á veggi og er þá gjarnan um fjöldaframleiddar plötur að ræða.  Hér er um að ræða persónulegri sérlausn og engin lausn eins.
Mannvit býður uppá margvíslega þjónustu á sviði hljóðvistar svo sem alhliða hljóðvistarhönnun og ráðgjöf, hljóðmælingar innandyra sem utan, kortlagningu hávaða o.fl.

Á meðfylgjandi myndum má sjá litlu listamennina að störfum.