Þeistareykjastöð - Mannvit.is
Frétt - 24.04.2018

Þeistareykjastöð í full afköst

Þeistareykjastöð hefur tekið seinni 45 MW aflvélina í notkun og er þar með komin með 90 MW aflgetu. Stöðin er þriðja jarðhitavirkjun Landsvirkjunar. Mannvit hefur séð um verkefnastjórnun fyrir ráðgjafa ásamt mati á umhverfisáhrifum, hönnun tengivirkis og háspennulína ásamt borráðgjöf, holutoppshönnun, boreftirliti og mat á stærð jarðhitasvæðis.

Mannvit og Verkís, unnu að hönnun virkjunarinnar og gerð útboðsgagna ásamt því að veita fageftirlit með hönnun, uppsetningu og gangsetningu vélbúnaðar, rafbúnaðar og stjórnbúnaðar. Mannvit og Verkís sáu einnig um hönnun stöðvarhús, gufuveitu og stoðkerfa sem hluta af heildarhönnun virkjunarinnar. Tark og Landslag voru einnig hluti af ráðgjafateymi við hönnun og undirbúning virkjunarinnar.

Vélasamstæðurnar eru framleiddar og uppsettar af Fuji Electric og Balcke-Durr. Fyrri vélasamstæðan var afhent Landsvirkjun til rekstrar 1. desember 2017 og seinni vélasamstæðan fór í rekstur nú í apríl 2018. Í frétt Landsvirkjunar um framkvæmdina segir  „Framkvæmdin hefur fylgt áætlun frá fyrsta degi en það má einkum rekja til góðrar og árangursríkrar samvinnu allra þeirra sem að henni hafa komið.“ Áætlað er að yfirborðsfrágangi og verkinu í heild ljúki í haust og með því lýkur framkvæmdum á Þeistareykjum í bili.

Mannvit óskar Landsvirkjun og Norðlendingum til hamingju með glæsilega aflstöð með þökk fyrir samstarfið.