Þeistareykjavirkjun 2016 - Mannvit.is
Frétt - 03.02.2017

Þeistareykjavirkjun fær GSAP sjálfbærnimat

Landsvirkjun setur sjálfbærni á oddinn í Þeistareykjavirkjun með nýjum matslykli á sjálfbærni sem unnið var að í samstarfi við Mannvit orkufyrirtæki og stofnanir sem koma að orkumálum á Íslandi. Sjálfbærni jarðvarmavirkjunarinnar er metin út frá GSAP matslykli sem byggður er á sambærilegum sjálfbærnislykli vatnsaflsvirkjana. Verkefnastýring hefur verið í höndum Mannvits en niðurstaðna úttektarinnar á Þeistareykjum, sem er í höndum þriðja aðila, er að vænta í mars.

Í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun segir m.a. að "Þeistareykjavirkjun er fyrsta jarðvarmavirkjun í heimi sem metin er samkvæmt drögum að nýjum GSAP matslykli um sjálfbærni jarðvarmavirkjana (e. „Geothermal Sustainability Assessment Protocol “). Nýi matslykillinn er unninn í samstarfi Orkustofnunar, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, HS Orku og Umhverfisstofnunar og er Sigurður St. Arnalds hjá Mannviti  verkefnastjóri. Verkefnið, sem er frumúttekt á undirbúningsfasa virkjunarinnar, hefur verið undirbúið frá því í haust.

Matsmaður úttektarinnar, Joerg Hartmann, er staddur hér á landi og hafa viðtöl við hagsmunaaðila verið tekin undanfarna daga. Í síðustu viku fóru fram viðtöl í Reykjavík og í þessari viku fara fram viðtöl norðan heiða í nærsamfélagi virkjunarinnar. Meðal viðmælenda hafa verið starfsmenn Landsvirkjunar, hönnuðir og fulltrúar ýmissa stofnana, sveitarfélaga, fyrirtækja og félagasamtaka og svo verktakar sem komið hafa að framkvæmdum.

Úttektin felur í sér nákvæma skoðun á 17 ólíkum flokkum sem varða undirbúning Þeistareykjavirkjunar og eiga að gefa mynd af því hversu vel starfsemin fellur að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun. Sem dæmi um flokka sem teknir eru út má nefna samskipti og samráð, stjórnun á umhverfislegum og samfélagslegum þáttum, vinnuafl og vinnuaðstöðu, nýting jarðhita auðlindarinnar og líffræðilegur fjölbreytileiki."