IPMA awards Landsvirkjun Mannvit.jpg
Frétt - 04.10.2019

Þeistareykjavirkjun hlýtur alþjóðleg verkefnastjórnunarverðlaun

Þeistareykjavirkjun hlaut gullverðlaun IPMA Global Project Excellence Award á vegum Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga þann 1.október. Verðlaunin eru stærstu verðlaun sem veitt eru í fagi verkefnastjórnunar á heimsvísu. Mannvit og Verkís voru verktaki við hönnun, verkefnastjórnun og uppbyggingu Þeistareykjastöðvar. Meginstef verðlaunanna í ár var sjálfbærni. 

Í frétt á vef Landsvirkjunar segir að "Þeistareykjavirkjun hlaut verðlaunin í flokknum stór verkefni. Úrskurður dómnefndar tilgreinir sem helstu styrkleika verkefnisins framúrskarandi samskipti við hagsmunaaðila á undirbúnings- og framkvæmdastigi og samhentan verkefnishóp með áherslur á öryggis- og umhverfismál í anda stefnu Landsvirkjunar um ábyrga nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda með sjálfbærni að leiðarljósi."

Mannvit og Verkís hönnuðu virkjunina og fóru með hönnunarstjórnun og verkstjórn ýmissa verkþátta.  Valur Knútsson og Árni Gunnarsson voru yfirverkefnastjórar verkefnisins hjá Landsvirkjun, en Freyr Harðarson og Claus Ballzus hjá Mannviti voru verkefnastjórar við hönnun, útboð og eftirlit með framkvæmdum ásamt Yrsu Sigurðardóttur frá Verkís.

Freyr Harðarson, verkefnisstjóri hjá Mannviti telur Landsvirkjun vel að verðlaununum komin og er ánægður með þátttöku Mannvits og Verkís í verkefninu. „Verðlaunin eru mikil viðurkenning fyrir Landsvirkjun og það verklag sem hefur þróast við uppbyggingu virkjana hér á landi til að tryggja ábyrga nýtingu auðlinda okkar.„

Það er sérstakt ánægjuefni að sjálfbærni þemað spilaði stórt hlutverk í ár, þar sem Þeistareykjastöð er einmitt fyrsta jarðvarmastöð í heimi sem metin hefur verið samkvæmt GSAP-matslykli um sjálfbærni jarðvarmavirkjana. GSAP matslykillinn var þróaður var í samstarfi íslensku jarðhitafyrirtækjanna, Orku náttúrunnar, Landsvirkjun og HS Orku undir verkefnastjórn Mannvits.

Sjá einnig frétt á vef Landsvirkjunar.

Mynd: Freyr Harðarson, verkefnisstjóri Mannvit á byggingartíma Þeistareykjastöðvar.

Myndband Landsvirkjunar um byggingu Þeistareykjastöðvar: