Nýr Þingvallavegur Mannvit.jpg
Frétt - 16.09.2019

Endurbættur Þingvallavegur opnaður

Nýr og endurbættur Þingvallavegur milli þjónustumiðstöðvar og Vallavegar var tekinn formlega í notkun eftir gagngerar endurbætur í dag. Vegurinn liggur á sama stað en hefur verið byggður upp að nýju og breikkaður. Breytingarnar auka öryggi til muna og bæta umferð um Þingvelli. 

Mannvit hafði umsjón og eftirlit með framkvæmdum en verkið fólst í styrkingu og breikkun núverandi vegar með áherslu á að auka umferðaröryggi.  Vegurinn var breikkaður úr um 6,5 metrum í 8 metra.  Vegurinn liggur um svæði með hátt verndargildi.  Um er að ræða þjóðgarð með öllum þeim verndunarsjónarmiðum sem um þá gilda, auk þess sem svæðið er allt á Heimsminjaskrá UNESCO og innan vatnasviðs Þingvallavatns.

Miklar kröfur voru gerðar varðandi endurheimt staðargróðurs og umgengni um svæðið. Verktaki hafði að hámarki tvær vikur frá því að gróðurtorfur voru teknar upp þar til þær þurftu að vera komnar niður á endanlegan stað. Fyrir vikið var rask á gróðri lítið og endanlegum áhrifum á svæðið við veginn haldið í lágmarki.

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, sagði framkvæmdirnar hafa tekist vel og í viðtali við RÚV sagði Bergþóra  að „Við þurfum að tryggja samgöngur fyrir gestina okkar sem við viljum fá hingað og okkur sjálf sem viljum skoða okkar náttúruperlu hér en eins fara eins varlega og kostur er í gegnum þetta svæði hér. Það voru gerðar ráðstafanir til þess sem ég vil meina að hafi tekist vel.“ Í frétt á vef RÚV má sjá viðtöl og myndir fyrir og eftir endurbætur.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son sam­göngu- og sveitarstjórnarráðherra, Ari Trausti Guðmunds­son formaður Þing­valla­nefnd­ar og Bergþóra Þor­kels­dótt­ir, for­stjóri Vega­gerðar­inn­ar, opnuðu veginn við form­lega athöfn í dag.