Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar 2018 - Mannvit.is
Frétt - 07.11.2018

3 erindi á Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar 2018

Árleg Rannsóknarráðstefna Vegagerðarinnar fór fram í Hörpu föstudaginn 2. nóvember 2018. Í dagskrá ráðstefnunnar bar ýmissa grasa og m.a. voru 3 erindi frá Mannviti. Líkt og segir á vef Vegagerðarinnar er ráðstefnunni ætlað að endurspegla afrakstur hluta þess rannsókna- og þróunarstarfs, sem styrkt er af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.

Nálgast má kynningar og ágrip erinda á vegum Mannvit að neðan:

Tilgangur þessa verkefnis var að skoða hvernig Vegagerðin geti notað brún skilti til auðkenningar fyrir þjóðgarða og aðra ferðamannastaði. Sérstaklega voru skoðaðir brúnir vegvísar vegna vaxandi fjölda ferðamanna og metið hvernig best væri að innleiða brúnan lit á skilti í reglugerð um umferðarmerki hérlendis. Þjóðgarðar eru sérstök landsvæði sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna, og innan þeirra eru þjóðvegir sem Vegagerðin er veghaldari að. Víða erlendis er notað einkennandi útlit á skiltum að og innan þjóðgarða til að styrkja ímynd þeirra, tákna gildi og markmið þeirra, og einnig til að vegfarendur þekki þau á augabragði. Þannig eru vegfarendur stöðugt minntir á að þeir séu staddir á viðkvæmu landsvæði sem beri að ganga vel um.

ÁGRIP

 

Verkefnið „Ferðamannaútskot við Hringveginn - Suðurland“ felst í að skoða 16 staði á Suðurlandi innan umdæmis þjónustustöðvar Vegagerðarinnar í Vík, sem voru kortlagðir í verkefninu „Hringvegurinn – Áhugaverðir staðir“. Verkefnið takmarkast við vegakaflann á Hringveginum frá Hvolsvelli austur að Núpsvötnum á Skeiðarársandi. Í verkefninu voru skoðaðir nánar þegar skilgreindir staðir sem nýttir eru sem ferðamannaútskot og greindar mögulegar úrbóta aðgerðir, sem auka mundu umferðaröryggi allra vegfarenda. Einnig voru mótaðar tillögur að forgangsröðun staða og tillögur að staðsetningu og útfærslu úrbóta á hverjum stað. Markmiðið er að tillögur um úrbætur verði hægt að nýta sem nokkurs konar forskrift að úrbótum á öðrum köflum Hringvegarins.

- ÁGRIP

 

Repjan er orkujurt sem inniheldur olíu og mjöl í fræjum og stönglar repjunnar nýtast sem áburður á akra. Aðrar orkujurtir sem vaxa á íslandi eru nepja, akurdoðra (camelina sativa) og lúpína. Nepjan er svo til sama afbrigðið og repjan. Uppskera þessara afbrigða er 2 til 5 tonn af fræjum á hvern hektara og olíuinnihald fræjanna milli 33 til 43%. Bæði uppskera og olíuinnihald fræjanna fara eftir veðurfari og gæðum jarðvegs. Ef miðað er við ræktun á einum hektara lands þá dregur repjujurtin í sig um 6 tonn af koltvíoxíð (CO2) við ræktunina. Þegar olían er brennd þá skilar repjujurtin til baka um 3 tonnum af koltvíoxíð (CO2) út í andrúmsloftið. Eftir standa 3 tonn af koltvíoxíð (CO2) sem jákvæð kolefnisjöfnun. Repjan er tiltölulega auðveld í ræktun og nýtir sólarljósið og koltvíoxíð (CO2) til vaxtar. Uppskera repjunnar gefur að meðaltali um 6 tonn af lífmassa sem skiptist jafnt í fræ og stöngla eða 3 tonn hvort. Við pressun fræjanna verða til 1 tonn af repjuolíu og 2 tonn af próteinríku fóðurmjöli. Repjuolían nýtist sem eldsneyti á skip og einnig sem matar- og steikingarolía. Próteinríka fóðurmjölið nýtist sem kjarnfóður fyrir húsdýr bænda og einnig sem fóður fyrir eldisfisk og stönglarnir sem undirburður fyrir kýrnar í Flatey og síðan sem áburður á túnin. Nota má repjuolíuna strax á allar skipavélar íslenska fiskiskipaflotans og þessa olíu má framleiða á íslenskum ökrum. Fyrir utan það að vera vistvænn og endurnýjanlegur orkugjafi þá er bruni repjuolíunnar án sóts, brennisteins og kolmónoxíðs (CO) og koldíoxíð (CO2) hefur þegar verið tvöfalt jafnað við ræktunina. Íslenski fiskiskipaflotinn brennir árlega um 160 þúsund tonnum af jarðdísil. Þessi brennsla bætir í andrúmsloftið rúmum 500 þúsund tonnum af koldíoxíð (CO2). Myndi flotinn brenna íslenskt ræktaðri repjuolíu myndi nettó brennslan taka úr andrúmsloftinu rúm 500 þúsund tonn af koldíoxíð (CO2).

- ÁGRIP.  Erindið fékk verðlaun sem Umhverfisátak 2018.