Mannvit celebrates 50th anniversary - Mannvit.is
Frétt - 07.03.2013

50 ára afmæli í dag!

Í dag fögnum við merkum áfanga í sögu Mannvits, hálfrar aldar afmæli!

Sagan-Upphafið
Mannvit hvílir sögulega séð á þremur meginstoðum: verkfræðistofum sem sameinuðust 2007 og 2008. Í ár eru 50 ár liðin frá stofnun tveggja þeirra, Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns - VGK annars vegar og Verkfræðistofunnar Hönnunar hins vegar. Þriðja stofan eða stoðin var Rafhönnun sem stofnuð var 1969. Stofnendur stofanna þriggja voru alls átta talsins og eru fjórir þeirra á lífi, þ.e.a.s. tveir af fjórum stofnenda Hönnunar og báðir stofnendur Rafhönnunar.

Stofnendur VGK voru tveir, Guðmundur Björnsson og Kristján Ágúst Flygering vélaverkfræðingar. Þeir hófu starfsemi við ráðgefandi verkfræðiþjónustu á Skólavörðustíg 3A í Reykjavík, á hæðinni fyrir ofan Mokkakaffi. Þann dag voru keyptir lyklar að húsnæðinu hjá Jes Zimsen og kvittunin er eitt af fyrstu fylgiskjölum bókhaldsins það árið.

Stofnendur Hönnunar voru fjórir, Guðmundur Gunnarsson, Jóhann Már Maríusson, Magnús Hallgrímsson og Þór Aðalsteinsson byggingarverkfræðingar. Samstarf þriggja þeirra hófst í aukavinnu í marsmánuði 1963 heima hjá Þór að Leifsgötu 9 í Reykjavík. Fjórmenningarnir voru allir starfandi á Vita- og hafnamálaskrifstofunni og tóku þátt í verkfalli verkfræðinga í opinberri þjónustu sumarið 1963. Þeir hættu samstundis störfum þar, þegar ríkisstjórnin stöðvaði verkfallið með bráðabirgðalögum, og ákváðu 19. ágúst að stofna verkfræðistofu. Leigt var húsnæði fyrir starfsemina að að Hólatorgi 2 í Reykjavík og fljótlega var ákveðið að nýja stofan skyldi heita Hönnun.

Rafhönnun sf. var formlega stofnuð 9. september 1969. Stofnendurnir voru tveir, Daði Ágústsson og Jón Otti Sigurðsson rafmagnstæknifræðingar. Starfsemin hófst í einu herbergi að Skúlagötu 63 í Reykjavík. Stofnendurnir voru báðir starfsmenn Rafmagnsveitu Reykjavíkur og sinntu fyrst starfseminni í aukavinnu. Daði kom til fullra starfa hjá Rafhönnun í janúarlok 1972 og Jón Otti nokkru síðar. VGK og Hönnun sameinuðust í VGK-Hönnun í ársbyrjun 2007 og þegar Rafhönnun bættist í hópinn árið 2008 varð til Mannvit hf.

Rætur Mannvits liggja því allt til ársins 1963 og fögnum við því í dag á afmælisdaginn 7. mars og með ýmsum hætti út árið.

Framfarir í 50 ár
Frá árinu 1963 hefur starfsfólk Mannvits og forverar þess verið leiðandi í ráðgjöf á fjölþættu sviði orkunýtingar, iðnaðar og mannvirkja á Íslandi. Við þökkum samstarfsaðilum okkar og viðskiptavinum fyrir farsælt samstarf í hálfa öld. Megi næstu 50 ár leiða af sér aukna velferð með traust, víðsýni, þekkingu og gleði að leiðarljósi.

undefined