Hellisheidi Geothermal Power Plant Hellisheiðarvirkjun
Frétt - 17.10.2011

90 MW tekin í notkun í Hellisheiðarvirkjun

Við hátíðlega athöfn þann 1 október 2011 tók Orkuveita Reykjavíkur formlega í notkun tvær 45 megavatta Mitsubishi aflvélar í 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar.  Nýju vélarnar eru í nýju stöðvarhúsi skammt frá aðalbyggingu virkjunarinnar og var stöðinni gefið nafnið Sleggjan. Heildarkostnaður við þennan fimmta áfanga uppbyggingar Hellisheiðarvirkjunar er 23,5  milljarðar króna. Mannvit fer m.a. með yfirstjórn hönnunar Hellisheiðarvirkjunar sem er nú orðin næst-aflmesta virkjun landsins og ein af aflmestu jarðhitavirkjunum heims, alls 303 megavött (MW) rafafls. Auk þess eru framleidd þar 133 MW varmaafls.

 

Hönnuðir Hellisheiðarvirkjunar eru Mannvit, Verkís, TARK Teiknistofan og Landslag.  Samkvæmt OR störfuðu um 600 manns við uppbygginguna á vegum þessara fyrirtækja, OR og verktaka þegar flest var. Mannvit sá um heildarhönnun og verkefnastjórnun, hagkvæmniathugun, mat á umhverfisáhrifum, umhverfislíkan, verkhönnun, vélbúnaðar-, loftræstikerfis- og stjórnbúnaðarhönnun, gerð útboðsgagna og mat á tilboðum, tæknilegt eftirlit og framkvæmdaeftirlit, gangsetningu og viðtökuprófanir á búnaði. 

 

Áframhaldandi þróun á svæðinu

Fyrsti áfangi heitavatnsframleiðslu á Hellisheiði uppá 133 MW, var tekinn í notkun í desember 2010. OR ætlar á næstu mánuðum og fram eftir árinu 2012 að vinnað að tiltekt og öðrum umhverfisbótum á svæðinu, þar sem framkvæmdir hafa staðið linnulítið frá vori 2005. Þegar eftirspurn heitavatns eykst mun OR bæta við tveim áföngum í varmaafli eins og hönnunin gerir ráð fyrir. Heildarafl fullbyggðrar virkjunar verður þá 303 MW rafafls og 400 MW varmaafls.