Afmælishátíð Mannvits í Hörpu - Mannvit.is
Frétt - 07.10.2013

Afmælishátíð Mannvits í Hörpu

Laugardaginn 5. október var blásið til glæsilegrar afmælisveislu í Hörpu í tilefni 50 ára afmælis Mannvits. Hátíðin hófst með tónleikunum með Hljómum, sem einnig  fagna hálfrar aldar afmæli um þessar mundir en á tónleikunum mátti heyra öll bestu lög Hljóma svo sem Þú og ég, Bláu augun þín, Ég elska alla og Fyrsti kossinn. Söngvararnir sem fram komu voru Stefán Hilmarsson, Valdimar Guðmundsson, Unnsteinn Manuel og Ágústa Eva Erlendsdóttir en sérstakir gestir voru hinir upprunalegu Hljómar, þeir Engilbert Jensen, Gunnar Þórðarson, Erlingur Björnsson og sonur Rúnars Júlíussonar heitins, Júlíus Freyr Guðmundsson. Tónlistarstjóri var Eyþór Gunnarsson.

 

Eftir tónleikana var gestum boðið að þiggja léttar veitingar á jarðhæð Hörpu undir ljúfum jasstónum Hot Eskimos. Karlakór Reykjavíkur söng einnig nokkur vel valin lög undir stjórn Friðriks S. Kristinssonar.

 

Hátíðin var öll hin glæsilegasta og sóttu hana hátt í  1.100 gestir, forseti Íslands, starfsfólk, viðskiptavinir og makar.