Algaennovation plant in Iceland - Mannvit.is
Frétt - 17.08.2018

Algaennovation semur við ON

Algaennovation skrifaði í dag undir 15 ára samning við ON um kaup á orku og öðrum aðföngum til smáþörungaframleiðslu sem verður sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Mannvit hefur unnið að undirbúningi framleiðslunnar fyrir Algaennovation frá því í febrúar s.l. Mannvit sér um alla hönnun, innkaup og verkefnastjórnun fyrir örþörungaframleiðsluna (Micro-Algae Production) sem staðsett verður í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun.ð

Algaennovation er alþjóðlegt sprotafyrirtæki sem hefur verið að þróa nýja tækni við að framleiða örþörunga. Fyrsti áfangi verkefnisins verður unninn á þessu ári. Áformað er að hefja framleiðslu á fóðri til seiðaeldis um mitt næsta ár. Ef framleiðsla gengur vel er áætlað að heildarfjárfesting verkefnisins hlaupi á milljörðum króna á næstu 5 árum.

Verkefnið er afskaplega jákvætt skref í átt til frekari nýtingar á þeirri orku sem ON nýtir á Hellisheiði þar sem Algeaennovation kaupir heitt og kalt vatn, rafmagn og koldíoxíð til framleiðslunnar. Í fréttatilkynningu ON af tilefni samningsins segir m.a. “Smáþörungaframleiðsla Algaennovation verður staðsett í Jarðhitagarði ON og mun fá afhent beint frá Hellisheiðarvirkjun umhverfisvænt rafmagn, heitt og kalt vatn og koltvíoxíð. Samvinnan við ON gerir Algaennovation kleift að hafa neikvætt fótspor og að nota minna en 1% af því ferskvatni og landsvæði sem hefðbundin smáþörungafyrirtæki nota við framleiðslu sína. Slík framleiðsla er mikilvægt skref í átt virðishringrásar (e. waste to value) og mun efla sjálfbæra nýsköpun hér á landi.”