Búðarhálslína tekin í notkun - Mannvit.is
Frétt - 27.01.2014

Búðarhálslína tekin í notkun

Búðarhálslína 1 og nýtt tengivirki Landsnets við Búðarháls og voru tekin formlega í notkun 10 janúar þegar Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra spennusetti virkið og tengdi þar með Búðarhálsvirkjun við meginflutningskerfi Landsnets. Búðarhálslína 1 er alls um 5,6 km löng 220 kV háspennulína sem liggur frá tengivirkinu við Búðarháls að Hrauneyjarfosslínu við Langöldu. Framkvæmdin í heild sinni mun bæta afhendingaröryggi raforku til almennings og fyrirtækja. Mat á umhverfisáhrifum línunnar fór fram samhliða mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar en legu hennar var breytt árið 2010 eins og fram kemur í fréttatilkynningu á vef Landsnets.

Mannvit kom mikið við sögu rannsókna, undirbúnings og hönnunar Búðarhálsvirkjunar og Búðarhálslínu. Einnig sá Mannvit um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna og skipulag margvíslegra rannsókna því tengdu. Í byggingu Búðarhálslínu sá Mannvit um verkhönnun og útboðshönnun ásamt ýmiskonar aðstoð á framkvæmdatíma, þ.m.t. aðstoð við vinnuflokk Landsnets við strengingu leiðara og jarðvíra.

Í Búðarhálsvirkjun kom Mannvit að virkjunartillögum frá upphafi og sá m.a. um rannsóknir og verkhönnun vegna virkjunarinnar, útboðshönnun lokubúnaðar og þrýstipípa og gerð útboðsgagna og hönnunarrýni fyrir þann búnað. Auk þess að aðstoða verkkaupa við samningagerð kom Mannvit að úttektum í verksmiðjum framleiðenda á búnaði ásamt aðstoð við eftirlit á verkstað.

Samkvæmt tilkynningu Landsnets er heildarkostnaður við byggingu Búðarhálslínu 1 og tengivirkisins við Búðarháls um einn milljarður króna en alls námu framkvæmdir Landsnets í flutningskerfinu á nýliðnu ári um sjö milljörðum króna.