Búrfell II Hydroplant Commissioned - Mannvit.is
Frétt - 28.06.2018

Búrfellsstöð II gangsett

Búrfellsstöð II, átjánda aflstöð Landsvirkjunar, var gangsett í dag við hátíðlega athöfn að viðstöddum stórum hópi fólks. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson lagði hornstein stöðvarinnar og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, gangsetti vélina. Mannvit hefur sinnt framkvæmdaeftirliti við stækkun Búrfellsstöðvar síðan framkvæmdir hófust árið 2016. Uppsett afl stöðvarinnar er 100 MW með einni vél sem staðsett er neðanjarðar til þess að lágmarka sýnileika. Verkefni Mannvits fól í sér eftirlitsþjónustu vegna stækkunar sem mun nýta vatn sem rann að jafnaði ónýtt fram hjá stöðinni á hverju ári og hámarkar nýtingu á rennsli Þjórsár við Búrfell. Kostnaður við verkefnið nemur um 17 milljörðum króna.

Hlutverk Mannvits í framkvæmdinni var skipt í eftirlit með jarðvinnu þ.e. greftri fyrir aðrennsliskurði, inntaksmannvirki, fallgöngum, kapalgöngum, greftri fyrir stöðvarhússhvelfingu og aðliggjandi loka og aðkomugöngum og tengigöngum, frárennslisgöngum, frárennslisskurði ásamt gerð brúar og vega innan framkvæmdasvæðisins. Einnig felur verkefnið í sér eftirlit með byggingarvinnu, þ.e. byggingu stöðvarhúss, ásamt uppsteypu inntakshúss, spennahúss og aðkomumannvirkis. Auk þess sá Mannvit um eftirlit öryggis-, heilbrigðis- og umhverfismála ásamt því að veita heilbrigðisþjónustu á verkstað. Verkeftirlit á staðnum var í höndum Mannvits og Landsvirkjunar, hönnun virkjunarinnar var í höndum Verkís og byggingarverktakar voru Íslenskir Aðalverktakar í samstarfi með Marti Contractors og Marti Tunnelbau. Andritz Hydro framleiddi vél- og rafbúnað og DSD-NOELL lokur og þrýstivatnspípu.

Hér má sjá video Landsvirkjunar um Búrfellsstöð II:

Ljósmynd: Landsvirkjun

Á mynd frá vinstri eru: Hörður Arnarson forstjóri, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri, herra Guðni Th. Jóhannesson Forseti Íslands, Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður LV, Ásbjörg Kristinsdóttir yfirverkefnisstjóri framkvæmdarinnar, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Gunnar Guðni Tómasson framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs.