Boxið_2015 (43).JPG
Frétt - 06.11.2015

Boxið 2015 - framkvæmdakeppni framhaldsskólanna

Mannvit tók þátt í Boxinu 2015 sem er vettvangur fyrir framhaldsskólanema til að spreyta sig á ólíkum verkefnum, reyna á samvinnu og kynnast tækni og iðnaði á skemmtilegan hátt. Keppt var til úrslita á laugardaginn 2 nóvember. Sigurvegari keppninnar var lið Menntaskólans á Akureyri. Lið MH varð í öðru sæti og MR í því þriðja.

Keppnin er frábær vettvangur fyrir ungt fólk sem er óhrætt við að hugsa út fyrir boxið og reyna á hugvit sitt og verklag í góðum hópi. Mannvit tók þátt í fyrsta skiptið þetta árið ásamt 7 öðrum fyrirtækjum. Átta skólar unnu sér rétt til að taka þátt í lokakeppninni og reyndu að leysa 8 þrautir sem fyrirtækin stóðu fyrir.

Markmiðið með keppninni er að kynna og vekja áhuga á tækni, tækninámi og störfum í iðnaði en hér á landi er skortur er á tæknimenntuðu fólki. Háskólinn í Reykjavík, Samtök iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samband íslenskra framhaldsskólanema standa að Boxinu.

Þrautin sem Mannvit lagði fyrir nemendurna snérist um öryggismál og jarðfræði og voru María Stefánsdóttir og Þorbjörg Hólmgeirsdóttir starfsmenn Mannvit höfundar af þrautinni ásamt Aldísi Ingimarsdóttur kennara við HR. Þrautin skiptist í þrjá hluta. Fyrsti hlutinn snéri að öryggismálum og áttu keppendur að átta sig á hvað væri viðeigandi öryggisfatnaður við vinnu á rannsóknarstofu. Annar hluti var að bera saman kornakúrfur við jarðvegssýni ásamt reiknisdæmi. Í þriðja hlutanum átti að finna út hvaðan fimm jarðvegssýni komu.

Krökkunum fannst þetta mjög krefjandi og náði enginn hópur að klára þrautina upp á 100%. Sá skóli sem stóð sig best í Mannvitsþrautinni var Menntaskólinn á Akureyri. En þáttur um keppnina verður sýndur í sjónvarpinu í janúar.