Boxið framkvæmdakeppni framhaldsskólanna í HR - Mannvit.is
Frétt - 11.11.2017

Boxið framkvæmdakeppni framhaldsskólanna í HR

Boxið framkvæmdakeppni framhaldsskólanna 2017 fór fram 11. nóvember í Háskólanum í Reykjavík. Að þessu sinni sigraði Menntaskólinn við Hamrahlíð keppnina í ár eftir eftir æsispennandi keppni. Menntaskólinn í Reykjavík varð í öðru sæti og lið Fjölbrautarskóla Suðurlands í því þriðja. Keppnin snýst um að leysa ýmsar þrautir á 30 mínútum sem lögð eru fyrir þau. Fjölmörg lið úr framhaldsskólum landsins taka þátt í forkeppni og 8 lið komast áfram í lokakeppni. Þrautin sem Mannvit lagði fyrir hópana var að hanna og smíða brú úr 1 kg af spaghetti og lími sem brúa átti 50 cm bil. Brúin var svo álagsprófuð, en þess má geta að lið Fjölbrautarskólans í Breiðholti smíðaði sterkustu brúna, sem þoldi 1.8 kg. og hlaut að launum aukaverðlaun frá Mannviti.

Meðal annarra þrauta sem liðin glímdu við í ár var að forrita díóðulampa fyrir þörungaræktun, smíða bíl úr gosdrykkjadósum og greina gögn úr lygamæli. Fyrirtækin sem lögðu þrautir fyrir nemendurna í ár voru: Endurvinnslan, KeyNatura, Valka, Marel, Oddi, Nox Medical, Kóðinn 1.0/Skema og Mannvit eins og fyrr segir. RÚV mun sýna sérstaka þætti frá keppninni á næstunni.

Háskólinn í Reykjavík, Samband íslenskra framhaldsskólanema og Samtök iðnaðarins, mennta- og menningarmálaráðuneyti standa að Boxinu en markmið keppninnar er vekja áhuga á tækni, tækninámi.