BREEAM Communities ALARK
Frétt - 08.05.2023

Orkureitur hlýtur "Excellent" BREEAM Communities vottun

Orkureiturinn í Reykjavík hefur hlotið BREEAM Communities vottun, sem er fyrsta hverfið sem hlýtur slíka vottun í Reykjavík. Mannvit var úttektaraðili vegna BREEAM Communities vottunarinnar, en BREEAM einkunn vottunarinnar er "Excellent" sem er mikill gæðastimpill á skipulagið, byggðina og samfélagið sem þar mun verða til. Reitir fasteignafélag fóru fyrir skipulagi Orkureitsins í samræmi við staðalinn. Um er að ræða 2,7 ha svæði sem markast af Suðurlandsbraut, Grensásvegi, Ármúla og nýrri götu,Orkumúla á milli Suðurlandsbrautar og Ármúla.  Skipulagsgerðin felst í enduruppbyggingu á því svæði þar sem Orkuhúsið stendur núna. Byggja á upp blandað hverfi með íbúðum, skrifstofum, verslunum og þjónustu. Þannig getur skapast spennandi borgarumhverfi með iðandi mannlífi frá morgni til kvölds. Verkefni styður einnig við stefnu um framboð nýrra íbúða á þéttingarsvæðum. Mannvit hafði yfirumsjón með matsferlinu, veitti ráðgjöf um ferlið, sá um úrvinnsla gagna og kom að skipulagsgerðinni.

Hvað er BREEAM Communities vottun?

BREEAM Communities vottun er alþjóðlega viðurkenndur breskur vistvottunarstaðall fyrir skipulagsgerð, þar sem þriðji aðili vottar skipulagið með tilliti til umhverfislegra, félagslegra og efnahagslegra gæða.

Reitir fasteignafélag er fyrri eigandi reitsins og eigandi skrifstofubyggingarinnar á reitnum. Reitir fóru fyrir skipulagsgerð á reitnum samkvæmt BREEAM staðlinum.

Í fréttatilkynninug Reita segir að "Skipulag reitsins gerir ráð fyrir skjólgóðum inngörðum sem eru að hluta til opnir og vel tengdir aðliggjandi svæðum. Borgarlínustöð er áformuð framan við lóðina við Suðurlandsbraut og góðir göngu og hjólastígar tengjast skipulagsvæðinu. Hugað hefur verið að aðlögun að loftslagsbreytingum og mikið er lagt upp úr gæðum opinna svæða, t.d. með blágrænum innviðum, endurnýtingu byggingarefna og góðri lýsingu. Loftræstisamstæða verður fyrir hverja íbúð sem tryggir bætt loftgæði og endurnýtingu varma. Iðnaðarhúsnæði að Ármúla 31 og bakhús á miðri lóðinni munu víkja fyrir 3-8 hæða byggingum í borgarmiðuðu skipulagi. SAFÍR byggingar, sem keypti byggingarheimildir á reitnum 2022, byggir nú 440 íbúðir og um 2 þús. m2 atvinnuhúsnæðis á reitnum."

Ljósmynd: ALARK