Urriðaholt BREEAM - Mannvit.is
Frétt - 26.05.2016

BREEAM vistvottun Urriðaholts

Nú á vormánuðum hlaut Urriðaholt í Garðabæ vistvottun samkvæmt BREEAM Communities matskerfinu. Urriðaholt er fyrsta hverfið hér á landi til að fá slíka vottun og fyrsta alþjóðlega verkefnið til að fá vottun samkvæmt 2012 útgáfu matskerfisins. Með vottuninni er staðfest að sjálfbær þróun og áhersla á umhverfi og skipulag sé leiðarljósið. Í frétt Morgunblaðsins er vitnað í Cary Buchanan, fulltrúa BREEAM, sem segir að vistvottun staðfesti að mæta ætti óskum íbúa og fyrirtækja um gæði, öryggi, fjölbreytni, náttúruvernd og aðgengi að útivistarsvæðum. Mannvit var ráðgjafi Urriðaholts hf. við skipulagsvinnuna sem matsaðili BREEAM Communities.

Í tengslum við veitingu viðurkenningarinnar fór fram málþing um vistvottun skipulags Urriðaholts þann 10. maí síðastliðinn. Þar hélt Ólöf Kristjánsdóttir erindi fyrir hönd Mannvits. Cary Buchanan gerði grein fyrir áherslum BREEAM Communities og ávinningi vottunar fyrir íbúa hverfisins í sínu erindi. Auk þess hélt Ásdís Hlökk Theódórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar erindi. Sjá nánar hér

Vottunin staðfestir að Urriðaholt uppfyllir skilyrði BREEAM Communities kerfisins um gott skipulag sem unnið hefur verið frá grunni með sjálfbæra þróun og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Grunnhugsunin er að vanda vel alla skipulagsvinnu með öflugri greiningarvinnu, víðtæku samráðsferli og ítarlegum gátlistum. Þannig er lagður grunnur að áhugaverðu samfélagi, skipulagi sem er endingargott, öruggt og aðlaðandi til búsetu og býður uppá góða aðstöðu til útivistar.

Í vottunarkerfi BREEAM er horft til fimm efnisflokka sem miða að því að meta og bæta sjálfbærni hverfisins. Flokkarnir eru:

  • Samráð og stjórnun
  • Félagsleg og efnahagsleg velferð
  • Auðlindir og orka
  • Landnotkun og vistfræði
  • Samgöngur og aðgengi

Á vef BREEAM er að finna vísun í Urriðaholt sem eins konar "case study". 

Á vef Buildingtalk er einnig farið fögrum orðum um Urriðaholt í grein sem ber heitið: "Iceland takes a fresh look at the design of communities."