
BREEAM vottun skilar betra skipulagi
Vitundarvakning um umhverfismál hefur haft í för með sér aukna eftirspurn á umhverfisvottunum og þar á meðal BREEAM vistvottun fyrir skipulag. Urriðaholt var fyrsta deiliskipulagið hérlendis sem hlaut BREEAM Communities vottun og stóð Mannvit að þeirri vottun.
Ólöf Kristjánsdóttir samgönguverkfræðingur og fagstjóri samgangna hefur hingað til verið sú eina sem hefur verið með BREEAM vottunar réttindi fyrir skipulag (BREEAM Communities) hjá Mannviti en nýlega hlaut Hildur Ómarsdóttir umhverfis- og byggingarverkfræðingur einnig sömu vottunarréttindi.
Vottunin byggir á alþjóðlegu vottunarkerfi sem hefur það að markmiði að tryggja samfélagslegan og efnahagslegan ávinning og á sama tíma draga úr umhverfisáhrifum. Með því móti má sýna fram á sjálfbærniávinning og hvetja til aukinnar eftirspurnar eftir sjálfbærri þróun.
BREEAM Communities matskerfið á bakvið vottunina er frábært verkfæri til að hafa samhliða skipulagsgerðinni sem nokkurskonar leiðarvísir til að ná vistvænu markmiði. Vinna matsaðila styður hönnuðina þar sem matskerfið er öflugur gátlisti og útkoman er betra skipulag. Mikil áhersla er lögð á samráð og greiningarvinnu samhliða skipulagsvinnunni, vönduð vinnubrögð og aðkomu ýmissa sérfræðinga.
Mannvit vinnur núna að því að BREEAM votta fjögur skipulagssvæði; Orkureit í Reykjavík, vistvænan atvinnukjarna við Blikastaði í Mosfellsbæ, Vífilsstaðaland í Garðabæ og fleiri áfanga í Urriðaholti í Garðabæ. Allt eru þetta nokkuð ólík deiliskipulög en öll hafa þau það sameiginlegt að hafa það markmið að gera hönnunina eins vistvæna og mögulegt er.
Vistvænn atvinnukjarni við Blikastaði
Deiliskipulag fyrir svæði þar sem fyrirhugað er fyrir verslunar- og athafnarlóðir í landi Blikastaða. Deiliskipulagssvæðið er um 17 ha að stærð og afmarkast af Vesturlandsvegi, Korpúlfsstaðavegi, Úlfarsá og sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Eitt af sérkennum svæðisins er nálægðin við Úlfarsá og aðliggjandi náttúru.
Orkureitur í Reykjavík
Um er að ræða 2,7 ha svæði sem markast af Suðurlandsbraut, Grensásvegi, Ármúla og nýrri götu,Orkumúla á milli Suðurlandsbrautar og Ármúla. Skipulagsgerðin felst í enduruppbyggingu á því svæði þar sem Orkuhúsið stendur núna. Byggja á upp blandað hverfi með íbúðum, skrifstofum, verslunum og þjónustu. Þannig getur skapast spennandi borgarumhverfi með iðandi mannlífi frá morgni til kvölds. Verkefni styður einnig við stefnu um framboð nýrra íbúða á þéttingarsvæðum. Hugmynd var sett fram um að stoppistöð Borgarlínu yrði við Orkureit og að Orkuhúsið tæki þátt í þeirri umgjörð.
Vífilsstaðaland í Garðabæ
Svæðið afmarkast af Hnoðraholti, Reykjanesbraut, Vífilsstaðavegi og golfvelli GKG. Skipulagssvæðið er alls um 16 ha að flatarmáli og er að stórum hluta mýri. Það er hugsað sem ný bæjarmiðja fyrir austurhluta Garðabæjar, með íþróttasvæði og þjónustu í bland við íbúðir. Reiknað er með að svæðið tengist eldri byggðum og miðbæ með nýrri göngu- og hjólaleið á svokallaðri jarðbrú yfir Reykjanesbraut. Stutt er í útivistarsvæði, golfvöll, Vífilsstaðavatn og upplandið þar í kring.
Urriðaholt í Garðabæ
Nú þegar er Rammaskipulag Urriðaholts og tveir áfangar þess, Norðurhluti 2 og Norðurhluti 3 komin með BREEAM Communities sjálfbærni vottun með "Very Good" einkunn. Mat á tveimur síðustu áföngunum á svæðinu, Austurhluta og Norðurhluta 4 eru í vinnslu. Skipulagssvæðið er í eigu Urriðaholts ehf sem er félag í meirihlutaeigu Oddfellowreglunnar á Íslandi. Urriðaholt ehf hefur staðið að gerð deiliskipulagsins, í samráði við Garðabæ.
Hafðu samband við Ólöfu Kristjánsdóttur fagstjóra samgangna í 422-3000 varðandi BREEAM vottun fyrir deiliskipulag og byggingar.
Ljósmynd frá vinstri: Hildur Ómarsdóttir, M.Sc. umhverfis- og byggingarverkfræði og Ólöf Kristjánsdóttir, M.Sc., Fagstjóri, samgöngur.