Brunnur Fjárfestir Laki Power Mannvit Nýsköpun
Frétt - 29.10.2019

Brunnur vaxtarsjóður fjárfestir í Laka Power

Nýsköpunarfyrirtækið Laki Power, leiðandi fyrirtæki á sviði rauntímaeftirlits með flutnings- og dreifikerfum raforku, hefur fengið fjármögnun frá Brunni vaxtarsjóði en sjóðurinn er fyrsti fagfjárfestirinn sem kemur að félaginu. Fjármagnið mun styðja við áframhaldandi vöruþróun Laka Power og sókn á erlenda markaði. Mannvit, sem hefur komið að fjölmörgum nýsköpunarverkefnum á sviði orku hérlendis, kom að stofnun og þróun Laki Power frá upphafi. 

Sigurjón Magnússon, framkvæmdastjóri Laka Power, segir straumhvörf felast í því að fá svo öflugan fjárfesti með sér í lið. „Með fjárfestingu Brunns fylgir mikilvæg reynsla af uppbyggingu nýsköpunarfyrirtækja og þekking á alþjóðlegu umhverfi sem mun nýtast á vegferð Laka Power á komandi árum. Fjármagnið mun gera félaginu kleift að bæta vöru- og þjónustuframboð sitt og mæta auknum eftirlitsþörfum rekstraraðila flutnings- og dreifikerfa raforku.“

Nýjar áskoranir, tengdar framboði frá endurnýjanlegum orkugjöfum svo sem vind- og sólarorku, hafa aukið álag á innviði raforkukerfa. Á sama tíma fara kröfur neytenda og eftirlitsaðila um rekstraröryggi vaxandi. „Eigendur flutnings- og dreifikerfa raforku þurfa í auknum mæli að reiða sig á rauntímaupplýsingar til að tryggja rekstraröryggi. Tækni Laka Power býður uppá áður óþekkta möguleika í slíku rauntímaeftirliti. Markaðurinn er alþjóðlegur og tækifærið einstakt“ segir Árni Blöndal, fjárfestingastjóri hjá Brunni vaxtarsjóði.

Einstök tækni

Eftirlitskerfi Laka Power byggir á PowerGRAB-tækni félagsins sem vinnur raforku frá háspennulínum án þess að tengjast þeim beint raffræðilega. Það er gert með því að nýta sterkt rafsegulsvið sem umlykur háspennulínur. Tæknin er afar vistvæn og skilar nægu afli svo aflfæða megi hverskyns tæki og búnað, t.d. fjarskipta- og eftirlitsbúnað. Aflið sem PowerGRAB-tæknin skilar er allt að 100 sinnum meira en aðrar samanburðarhæfar lausnir á markaði.

Um Laka Power

Laki Power var stofnað af Mannvit og Rásmark árið 2015 og frá upphafi hefur Landsnet, flutningsaðili raforku á Íslandi, unnið með félaginu að vöruþróun og -prófunum. Flutnings- og dreifikerfi raforku á heimsvísu eru milljónir kílómetra að lengd. Aðgangur að rafmagni frá rafveitu er hins vegar víðast hvar takmarkaður. Rekstraraðilar flutnings- og dreifikerfa þurfa að fylgjast náið með ástandi háspennulína og þurfa að aflfæða þann eftirlitsbúnað sem notaður er. Þær lausnir sem standa þeim til boða eru rafstöðvar sem nota jarðefnaeldsneyti, vindmyllur, sólarsellur eða raffæðing um langar leiðir frá lágspennu rafdreifikerfi. Fjölmargir annmarkar eru á notkun þessara lausna, t.d. varðandi umhverfismál. Þar að auki eru kostnaðar- og rekstrarlegir þættir sem valda því að þær eru notaðar í afar takmörkuðum mæli. 

Eftirlitskerfi Laka Power er einstakt og byggir á tækni sem getur aflfætt fjölbreyttan eftirlitsbúnað og mælitæki á umhverfisvænan hátt.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu félagins: www.lakipower.com

Um Brunn vaxtarsjóð

Brunnur vaxtarsjóður er 4 milljarða króna fagfjárfestasjóður. Sjóðurinn fjárfestir í íslenskum sprota- og vaxtafyrirtækjum. Lögð er áhersla á að fyrirtækin sem fjárfest er í búi yfir samkeppnisforskoti í formi þekkingar, einkaleyfis eða viðskiptaleyndarmáls, og að frumkvöðlateymið sé framúrskarandi á sínu sviði.

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu sjóðsins: www.brunnurventures.com