Climeworks ORCA Hellisheidi Iceland
Frétt - 02.02.2021

Climeworks fangi 4000 tonn CO2 á ári

4.000 tonnum af CO2 úr andrúmslofti verður fangað og fargað á ári hverju á Hellisheiði með samstarfi nýsköpunarfyrirtækjanna, Climeworks og Carbfix.

Mannvit vinnur að uppbyggingu aðstöðu svissneska fyrirtækisins Climeworks, nefnd Orca, innan Jarðhitagarðs Orku náttúrunnar til að fanga CO2 úr andrúmslofti með sérþróaðri tækni Climeworks, Direct Air Capture. Orka náttúrunnar mun tryggja stöðugt framboð af hita og endurnýjanlegri orku til að knýja tæknibúnaðinn áfram. Carbfix fargar síðan koldíoxíðinu með niðurdælingu í berglög, þar sem það verður að steini. Áætlað að er að taka loftsuguverið í gagnið um mitt ár 2021.

Yfir 15 ára rannsóknir að baki

CarbFix er niðurstaða þrotlausrar rannsóknarvinnu og tilraunastarfs hjá Orkuveitu Reykjavíkur og ON og í þróun á þessari sérþróuðu tækni við að dæla koltvíoxíði niður í jarðlög. Mannvit er stolt af aðkomu sinni við hönnun og undirbúning þessarar einstöku tækni sem felst í að fanga og farga CO2 úr útblæstri með því að dæla koltvíoxíðinu ofan í berglög basalt­s á um eins kíló­metra dýpi þar sem það steingerist. Verksvið Mannvits í Carbfix verkefninu hefur verið yfirumsjón og samræming hönnunar, eftirlit með smíði, uppsetningu og umsjón með uppkeyrslu, ferilhönnun (P&ID) og hönnun þvottaturns ásamt verkhönnun. Nánari upplýsingar um CarbFix verkefnið.

Hvers vegna draga úr losun koldíoxíðs og gróðurhúsalofttegunda?

Í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum segir að „Vísindin sýna fram á hraðar breytingar á vistkerfum jarðar. Ísbreiður og jöklar á jörðinni eru að minnka vegna loftslagsbreytinga, sjávarborð að hækka og sjórinn að súrna. Lífbreytileika um allan heim er ógnað og það er ekki að ósekju að æ oftar er talað um hamfarahlýnun og neyðarástand í loftslagsmálum.

Vísindin gefa okkur sífellt skýrari skilaboð um að vandinn sé meiri en fyrri spár hafa sýnt og að breytingarnar séu hraðari en áður var talið. Vísindin undirstrika jafnframt nauðsyn þess að tafarlaust sé brugðist við. Hefjast þarf handa strax og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda umframkolefni úr andrúmslofti til að sporna við breytingunum.

Að draga úr losun er margbrotið viðfangsefni. Losunin er samþætt öllu okkar hagkerfi – atvinnuvegum, framleiðslu, neyslu, samgöngum og landnotkun, svo nokkur dæmi séu nefnd – en baráttan gegn loftslagsvánni er svo brýn að hún kallar á aðgerðir á öllum sviðum. Aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum tekur mið af þessu.“