CRI og Mannvit undirrita samning um verkfræðiráðgjöf - Mannvit.is
Frétt - 11.02.2014

CRI og Mannvit undirrita samning um verkfræðiráðgjöf

Carbon Recycling International (CRI) og Mannvit hafa undirritað samning um verkfræðiráðgjöf við stækkun George Olah metanólverksmiðju CRI við Svartsengi í Grindavík þar sem framleitt er endurnýjanlegt metanól undir vörumerkinu Vulcanol.

„Samningurinn er áframhald á samstarfi Mannvits og Carbon Recycling International sem hófst við upphaf starfsemi fyrirtækisins. Fyrirtækin stefna að áframhaldandi samstarfi við byggingar fleiri verksmiðja til framleiðslu á endurnýjanlegu metanóli á Íslandi og erlendis,“ segir K-C Tran forstjóri og einn stofnenda Carbon recycling International.

„Mannvit er stolt af þátttöku sinni við stækkun George Olah verksmiðjunnar, og kemur að verkefninu með víðtæka reynslu og þekkingu í verkfræði til að reisa örugga og hagkvæma verksmiðju,“ segir Haukur Óskarsson framkvæmdastjóri iðnaðar hjá Mannviti.

Með stækkun verksmiðjunnar mun framleiðslugeta hennar þrefaldast, endurvinna 4.500 tonn af koltvísýringi og framleiða 4.000 tonn af endurnýjanlegu metanóli (5 milljónir lítra) á ári.

Framleiðslan verður seld til viðskiptavina á Íslandi og erlendis í eldsneytisframleiðslu og dreifingu. Verksmiðjan framleiðir endurnýjanlegt metanól með endurvinnslu á koltvísýringsútblæstri og raforku frá HS Orku sem er samstarfsaðili Carbon Recycling International. Verkefnisstjóri CRI er Ásgeir Ívarsson.

Markmiðið er að ljúka stækkunarferlinu á þriðja ársfjórðungi 2014.

 

Um Carbon Recycling International (CRI):  CRI er íslenskt sprotafyrirtæki í grænni orku sem hóf starfsemi með rannsóknum og þróunaraðferða til framleiðslu á endurnýjanlegu eldsneyti árið 2006. Eldsneytisverksmiðja CRI í Svartsengi var opnuð 2011.  Hjá fyrirtækinu starfa á þriðja tug starfsmanna við framleiðslu, rannsóknir og þróun.  Höfuðstöðvar CRI eru við Borgartún í Reykjavík.