
Málþing um gagnaver
Á þriðjudaginn 25.október fór fram Data Center Forum Reykjavik í Grósku. Viðburðurinn er málþing um gagnaver en sérstök áhersla var lögð á gagnaver á Íslandi og iðnaðinn í kringum þau. Mannvit hefur unnið mikið fyrir gagnaver á Íslandi og Þröstur Helgason, fagstjóri upplýsingasviði Mannvits tók þátt í panel umræðum undir heitinu "Connecting Globally, Enriching Locally" um mikilvægi gagnaversiðnaðarins fyrir fyrirtæki eins og Mannvit ásamt ólíkum þjónustuaðilum sem sprottið hafa upp í kringum þjónustu við gagnaverin á Íslandi. Einnig tók Valdimar Hermannsson, bæjarstjóri Blönduós þátt í umræðum en Borealis Data Center er einmitt staðsett á Blönduósi og hefur skapað auknar tekjur og stuðlað að uppbyggingu í bæjarfélaginu. Hjá Verne Global gagnverinu starfa á bilinu 100-200 manns á degi hverjum enda hefur uppbygging og stækkun staðið yfir þar lengi.
Nýr sæstrengur
Framundan er svo bætt þjónusta við gagnaver og landsmenn alla með nýjum sæstreng sem liggur um 1750 km leið til Dublin í Írlandi. Strengurinn er lagður af Farice og verður tekinn í notkun í desember. Með strengnum verður enn betri og öruggari gagna og fjarstkiptatenging við Ísland að veruleika og gagnaverin á Íslandi verða samkeppnishæfari þegar kemur að hraða tenginga.