Facebook image
Fara yfir á efnissvæði
Matthias Loftsson Mannvit Frettabladid Ernir
Frétt - 07.11.2022

„Enginn veit hvað býr í fjöllunum"

„Það er alltaf spennandi að takast á við ný veggöng,“ segir Matthías Loftsson, jarðverkfræðingur hjá Mannviti. Hann hefur komið að flestum jarð- og veggöngum á Íslandi í meira en þrjátíu ár, en vinna við Blönduvirkjun var þar fyrst á dagskrá.

Fréttablaðið tók Matthías tali að tilefni þess að hann hélt erindi um fyrirhuguð Fjarðarheiðargöng á Degi verkfræðinnar á Hilton Reykjavík Nordica, föstudaginn 21. október.

„Þar ætla ég að fjalla um Fjarðarheiðargöng almennt, hönnun ganganna, framkvæmdaráætlun, magntölur og hluti sem við höfum verið að skoða; jarðfræði og bergstyrkingar, vatnsinnrennsli, vatnsklæðningar og framkvæmdina sjálfa, hvað hún tekur langan tíma, og ferlið og búnaðinn í göngunum, því þetta eru ekki bara gat í gegnum fjall heldur er mikið af alls kyns raf- og tæknibúnaði inni í þeim,“ útskýrir Matthías.

Margt getur komið á óvart

Fjarðarheiðargöng munu liggja á milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða.

„Áætlað er að hefja undirbúningsframkvæmdir á næsta ári en gangagerðin sjálf hæfist ekki fyrr en á vormánuðum 2024 og göngin yrðu tilbúin í febrúar 2030. Við erum nú að ljúka við okkar hluta af hönnun ganganna og skilum senn af okkur hönnunargögnunum, en þetta er alltaf langt ferli, rannsóknarvinnan, undirbúningsferlið og að bjóða verkið út,“ upplýsir Matthías.

Heildarlengd Fjarðarheiðarganga verður 13,3 kílómetrar.

„Það gerir þau að lengstu veggöngum á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Gert er ráð fyrir 26 útskotum með 500 metra millibili, í samræmi við norska veggangastaðalinn N500 sem við fylgjum. Útskotin eru þriggja metra breið og 30 metra löng auk að- og fráreina, með neyðarsíma og fleiru sem til þarf, en inn af útskotunum verða reykþétt neyðarrými ef slys eða eldur verður í göngunum og fólk getur þá flúið þangað inn,“ greinir Matthías frá.

Hann segir margt geta komið á óvart við gerð vegganga.

„Við vitum að undir Fjarðarheiðinni eru þykk og veik setbergslög sem við þurfum að kljást við og reikna með voldugum bergstyrkingum á hluta ganganna. Þá er Heiðarvatn uppi á Fjarðarheiði sem notað er sem uppistöðulón og menn því á tánum hvað varðar vatnsinnrennsli í göngin. Ef vatnsrennsli reynist mikið þurfum við að bora bergþéttingarholur og bergþétta svo rennslið hafi ekki áhrif á vatnsbúskap til virkjana í Fjarðará. Ekki er vitað til þess að jarðhiti sé á þessari gangaleið, eins og reyndist vera í Vaðlaheiði, en við erum þó á varðbergi þar sem þetta hefur ekki verið kannað til hlítar. Það veit nefnilega enginn fyrir víst hvað býr í fjöllunum,“ segir Matthías.

Mikil samgöngubót

Matthías lauk jarðfræðinámi við Háskóla Íslands árið 1979 og lauk síðar framhaldsnámi í jarðverkfræði í Kanada.

„Eftir jarðfræðinámið vann ég um tíma við bergþéttingu í Hrauneyjafossvirkjun, þar sem einn hluti jarðfræðinnar tengist verkfræði og kallast mannvirkjaverkfræði. Þá nýtir maður þekkingu innan jarðfræðinnar og yfirfærir í verklega hugsun þannig að bergið sjálft sé notað sem efniviður í stað þess að byggja úr efnum. Í framhaldsnáminu lagði ég svo stund á jarðverkfræði sem er tenging á milli jarðfræði og verkfræði,“ útskýrir Matthías.

Í starfi jarðverkfræðings hannar Matthías allt sem lýtur að greftri og bergstyrkingu ganga, vatnsleka í göngunum, leiðum til að takmarka innrennslið og fleira.

„Það sem getur verið flókið við jarðgangavinnu er að við vitum ekki allt um jarðfræðina þrátt fyrir rannsóknir, og margt óvænt hefur stundum komið fyrir eins og heitavatnsrennslið í Vaðlaheiðinni á sínum tíma. Við þekkjum veik setbergslög úr fyrri göngum og þykjumst kunna ráð við þeim með öflugum bergstyrkingum, en mikið heitt og kalt vatn getur krafist alls konar úrlausna. Þá þarf mikið af vatnsklæðningum til að beina vatni frá akbrautum og bergþéttingar til að fá ekki of mikið vatn inn í göngin. Því má segja að hönnun og gerð vegganga sé mikið jarðverkfræðilegt viðfangsefni,“ segir Matthías.

Umferð í Fjarðarheiðargöngum er áætluð 1.000 til 1.500 bílar á sólarhring, en meiri dagana sem Norræna leggst að höfn í Seyðisfirði. Hæð ganganna verður 4,60 metrar og breiddin 9,50 metrar, sem er eins og í Vaðlaheiðargöngunum, en í samanburði eru Norðfjarðargöng og Hvalfjarðargöngin, sunnan megin, 8,50 metra breið.

„Veggöng eru mikil samgöngubót, þótt þau séu dýr mannvirki. Þau stytta leiðir, fækka slysum og draga úr slysahættu fyrir vegfarendur. Vegalengd á milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða verður svipuð í Fjarðarheiðargöngunum en í staðinn fyrir að keyra upp á 600 metra hátt fjall í hálku og snjó yfir vetrartímann sparast eflaust heilmikill tími og umferðaröryggi eykst til muna. Gangamunnarnir sitt hvorum megin verða í 130 og 140 metra hæð, og því verða vegfarendur alltaf á láglendi og í mun viðráðanlegri aðstæðum,“ segir Matthías.

Viðtalið að ofan birtist í heild sinni í Fréttablaðinu föstudaginn 21.október 2022. Nánari upplýsingar um þjónustu við undirbúning í jarðgöng.

Ljósmynd: FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Þessi síða notar vafrakökur
Skoða nánar