Hlaðvarp Sjálfbært Samfélag
Grein - 06.11.2020

Félagshagfræðileg greining Borgarlínu

Í Morgunblaðinu þann 6.nóvember birtist grein eftir Ólöfu Kristjánsdóttur, samgönguverkfræðing M.Sc. og fagstjóra samgangna hjá Mannviti hf. og Meta Reimer Brödsted hagfræðing hjá COWI A/S. Greinin er birt hér í heild sinni.

Félagshagfræðileg greining Borgarlínu var gefin út fyrir nokkrum vikum en hana má nálgast á borgarlinan.is. Niðurstaða hennar er að þjóðhagslegur ábati af framkvæmdinni er metinn tæplega 26 milljarðar kr. að núvirði. Greiningin var framkvæmd með danska arðsemislíkaninu TERESA sem hannað var fyrir samgönguráðuneyti Danmerkur til að samræma aðferðafræði við gerð kostnaðar-ábatagreininga á samgönguverkefnum. Líkanið hefur m.a. verið notað fyrir uppbyggingu Metro-kerfisins í Kaupmannahöfn. Líkanið var þróað af samgönguhagfræðingum í Danmörku, út frá kröfum Evrópusambandsins um gæði kostnaðar- og ábatagreininga.

Áhrif á alla ferðamáta skoðuð

Samhliða greiningunni var útbúið ítarlegt samgöngulíkan fyrir höfuðborgarsvæðið og áhrif Borgarlínunnar á alla ferðamáta greind, líkt og tíðkast á Norðurlöndum. Niðurstöður líkanskeyrslna með og án Borgarlínu voru að Borgarlínan mun draga úr umferðartöfum frá því sem hefði orðið. Tilfærsla farþega frá einkabílum í almenningssamgöngur í líkaninu gerist vegna þess að notendur meta almenningssamgöngur sem samkeppnishæfan ferðamáta á við einkabíl m.t.t. ferðatíma og beinna útgjalda.

Í greiningunni er tími fólks verðmetinn og ferðatímasparnaður notenda almenningssamgangna reiknast sem 94 ma.kr. ábati yfir 30 ára greiningartímabilið. Samkvæmt niðurstöðum samgöngulíkansins mun fjöldi ferða með almenningssamgöngum aukast um 20% á dag árið 2024 vegna tilkomu Borgarlínu. Hér er því um að ræða bæði núverandi og nýja notendur.

Fargjöld endurspegla ábata fyrir hluta farþega

Í greiningunni eru fargjöld “núverandi notenda”, þ.e. þeirra sem ferðuðust á áhrifasvæði Borgarlínunnar fyrir opnun hennar, meðhöndluð sem tilfærslur til rekstraraðila Borgarlínunnar og teljast ekki sem ábati í lokaniðurstöðu. Útgjöld “nýrra notenda” þ.e. þeirra sem byrja að ferðast á áhrifasvæðinu vegna tilkomu Borgarlínunnar eru hins vegar talin til samfélagslegs ábata. Eru fargjöldin talin endurspegla ábata nýrra notenda af Borgarlínunni. Tekið er tillit til þessa í lokaniðurstöðu í samræmi við reglur “Guide to Cost Benefit Analysis of Investment Projects” frá Evrópusambandinu og reglur í dönskum stöðlum.

Lokavirði framkvæmdarinnar endurspeglar ábata umfram tíma greiningarinnar

Lokavirði mannvirkisins endurspeglar hagrænt virði þess í lok greiningartímans m.a. í formi núvirts ábata umfram tíma greiningarinnar. Mannvirkið hefur enda verið í góðu viðhaldi á greiningartímanum og gert ráð fyrir að það muni nýtast borgarbúum um ókomna tíð. Í þessu sambandi má nefna að Hvalfjarðargöng eru nú yfir 20 ára gömul en hagrænt virði ganganna sem m.a. felst í núvirtum ábata vegstyttingarinnar næstu áratugi er enn mikið. Að setja lokavirði jafnt og 0 er ekki í samræmi við gildandi reglur í kostnaðar- og ábatagreiningum. Lokavirðið er samgæði íbúa höfuðborgarsvæðisins, þ.e. fjárfesting í framtíðarlífsgæðum.

Gert ráð fyrir áhættu í útreikningum

Til að taka tillit til áhættu og meta áreiðanleika greiningarinnar var gerð næmnigreining á ákveðnum þáttum, til viðbótar við 50% óvissuálag á framkvæmdakostnað. Næmnigreiningin sýndi að verkefnið heldur samfélagslegum ábata þrátt fyrir talsverðar breytingar á helstu kostnaðarliðum og öðrum forsendum.

Samræmd aðferðafræði og tilmæli OECD

Jákvætt er að félagshagfræðileg greining Borgarlínu hafi verið gerð og lykilatriði er að haldið verði áfram að gera slíkar greiningar á samgönguverkefnum, með samræmdri aðferðafræði, til að fá samanburð á verkefnum. Niðurstöður slíkra greininga geta verið ráðgefandi fyrir forgangsröðun framkvæmda þó önnur atriði geti einnig ráðið för, m.a. byggða- og umhverfissjónarmið. Það hefur ekki tíðkast hérlendis að framkvæma slíkar greiningar fyrir samgönguinnviði og í efnahagslegri greiningu OECD á Íslandi 2019 var ein helsta ráðleggingin til að bæta opinberar fjárfestingar sú að framkvæma ítarlegar félagshagfræðilegar greiningar áður en ráðist er í stór innviðaverkefni.

Borgarlínan hluti af margþættri lausn

Borgarlínan er niðurstaða áralangs samstarfs ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu: Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar, Reykjavíkur og Seltjarnarness. Í samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna er gert ráð fyrir að Borgarlínan verði hluti af margþættri lausn sem felur einnig í sér fjárfestingu í vegamannvirkjum og aukna áherslu á virkar samgöngur. Meginmarkmiðið með Borgarlínunni er að skapa samkeppnishæfan og umhverfisvænan valkost við einkabíla með stóraukinni þjónustu, aukinni tíðni, hraðari ferðum og bættu aðgengi og samspili almenningssamgangna og skipulags.

Íbúum höfuðborgarsvæðisins mun fjölga mikið á næstu áratugum. Niðurstöður samgöngulíkans benda til að umferðartafir myndu aukast til muna á næstu áratugum þó að fjárfest yrði eingöngu í innviðum fyrir bílaumferð. Margþætt lausn í samgöngum og þétting byggðar varð því fyrir valinu í sviðsmyndagreiningu svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040. Lausnin fælist í fjölbreyttum og raunhæfum samgönguvalkostum sem auka afköst í samgöngum og bæta gæði hins byggða umhverfis.

Greinarhöfundar eru verk- og hagfræðingar Mannvits hf. og COWI A/S sem eru höfundar Félagshagfræðilegrar greiningar Borgarlínu.

 

Félagshagfræðileg greining Borgarlínu má finna hér á vef Borgarlínu (pdf).

Nánari upplýsingar veitir Ólöf Kristjánsdóttir, Fagstjóri á samgöngusviði hjá Mannvit. 
olof@mannvit.is