Tryggvi Jónsson - Mannvit.is
Frétt - 03.04.2018

Fjármagn vantar í innviði

Tryggvi Jónsson framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Mannviti segir fjármagn vanta í uppbyggingu innviða í viðtali við Viðskiptablaðið. Hér er viðtalið í heild sinni:

Ísland orðið of dýrt fyrir Noreg

Við höfum áhyggjur af hve lítil fjárfesting er fram undan í orku, iðnaði og innviðum. Landsvirkjun hefur gefið það út að það verði eiginlega engar nýframkvæmdir á árinu 2019,“ segir Tryggvi Jónsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Mannviti.

„Það er klárlega að myndast einhver slaki í hagkerfinu. Vegagerðin er til að mynda með fullt af verkefnum fram undan en vantar bara að fá fjármagn.“

Tryggvi kallar eftir því að ríkisvaldið stígi inn í. „Annaðhvort sjálft eða búi til einhvern ramma þannig að einkafjármagn geti farið með í samstarf með hinu opinbera.“ „Það er svo arðbært að byggja upp innviði. Hvað þá núna með alla þessa ferðamenn,“ segir Tryggvi. „Það sést hvað góðir innviðir skipta miklu máli. Sjáðu bara Reykjanesbrautina. Hún var tvöfölduð fyrir tíu árum síðan. Þú getur rétt ímyndað þér hver staðan væri ef það hefði ekki verið gert.“

Óvissa árið 2019

 Tryggvi segir að verkefnin hjá Mannviti séu næg. „En maður veit ekki hvernig staðan verður í lok árs og sérstaklega í lok næsta árs. Það eru margar stórar framkvæmdir að klárast. Til að mynda er PCC, Þeistareykjum og stækkun Búrfells að ljúka á þessu ári og maður sér ekki hvað er að koma í staðinn,“ segir hann.

Hörpureiturinn stærsta verkefnið

Tryggvi segir hótelverkefni og íbúðaverkefni hafi verið áberandi síðustu ár. „Mannvirkjahlutinn hefur vaxið rosalega á kostnað iðnaðar og orku. En það er bara svo mikilvægt að það sé fjárfest í orku og iðnaði hérna á Íslandi. Við þurfum að halda áfram að framleiða og búa til verðmæti,“ segir Tryggvi. Undanfarin ár hafi Mannvit teiknað nálægt hundrað þúsund fermetra af húsnæði.

 „Stærsta verkefnið okkar núna er við Hörpureitinn, Marriott Edition hótelið og íbúðir og verslanir þar við hliðin á,“ segir Tryggvi og bendir á að alls sé byggingarmagn á þeim hluta Hörpureitsins sem Mannviti hanni og stjórni um 35 þúsund fermetrar.

Ferðaþjónustan að ná jafnvægi

„Á síðustu þrem til fjórum árum höfum við hannað yfir 600 hótelherbergi.“ Hins vegar virðist hafa hægt á í ferðaþjónustunni að undanförnu hvað varðar ný hótelverkefni. „Ég held að menn vilji aðeins bíða og sjá,“ segir hann. „Það er kannski allt í lagi þó að það hægist um. Það þarf ekki alltaf að vera brjálaður vöxtur hérna. Við þolum það ekki og markaðurinn er kannski aðeins að jafna sig.“ Þó sé Mannvit enn með nokkur verkefni við að byggja ný hótel eða stækka við eldri hótel. Þar sé Marriott Edition hótelið við Hörpu stærst, eins og áður sagði, en auk þess er verið að byggja hótel við Lækjargötu og stækka hótelið við Hnappavelli svo einhverjar hótelframkvæmdir séu nefndar.

Má aldrei slaka á

Tryggvi segir að hrunið hafi ekki haft sömu áhrif á Mannvit og mörg önnur fyrirtæki. „Það var áfram fjárfesting í orku og iðnaði fram til 2012. Það er eiginlega ekki fyrr en 2013 sem kreppan hittir okkur,“ segir Tryggvi. „Síðan höfum við smám saman verið að byggja þetta upp aftur og verið með góðan og heilbrigðan rekstur undanfarin ár. En maður má aldrei halla sér aftur í þessum bransa heldur þarf alltaf að vera á tánum.“

Ísland of dýrt fyrir Noreg

Tryggvi segir að kostnaður við verkfræði- og ráðgjafastörf hafi hækkað mikið í samanburði við önnur lönd að undanförnu. „Það sem við horfum núna á er að laun hafa hækkað og krónan styrkst og ef eitthvað gefur á höfum við engin tök á að leita erlendis eftir verkefnum, við erum allt of dýr. Við erum meira að segja of dýr fyrir Noregsmarkað.

Ætli við séum ekki 20 til 30% of dýr fyrir Noreg.“ Tryggvi bendir á að ein norsk króna hafi kostað 22 íslenskar krónur árið 2013 en kosti nú 13 íslenskar krónur. „Þannig að á síðustu fjórum til fimm árum hefur þetta breyst svakalega. Það er alveg sama hvar við berum niður. Það er mjög erfitt fyrir okkur að selja þjónustu frá Íslandi yfir landamæri,“ segir Tryggvi.

Áhyggjur af stöðu jarðvarmans

 Mannvit rekur skrifstofur í Noregi, á Grænlandi, í Þýskalandi og Ungverjalandi. Á skrifstofunum í Þýskalandi og Ungverjalandi starfa um 50 manns starfa, að stórum hluta við jarðvarmaverkefni. „Maður veit ekki hvað verður um jarðhitamarkaðinn hér á landi. Maður er hræddur um að þekkingin okkar endi í Mið-Evrópu eða á elliheimilum ef við höldum ekki áfram að byggja upp eða þróa þennan markað,“ segir Tryggvi. „Kannski erum við komin að ákveðnum mörkum því það er erfiðara að finna nýja virkjanakosti og þurfum að fara að einbeita okkur að því að ná meira út úr því sem við höfum,“ segir Tryggvi.