Framfarir í 50 ár - Mannvit.is
Frétt - 20.12.2013

„Framfarir í 50 ár“ – afmælisrit

Mannvit hf hefur á þessu ári fagnað 50 ára afmæli, en tvö þeirra fyrirtækja sem á árinu 2008  urðu Mannvit, Verkfræðistofa Guðmundar og Kristjáns (VGK) og Hönnun voru stofnuð árið 1963.  Það þriðja, Rafhönnun, var stofnað árið 1969.  Á þessum tímamótum var ráðist í að taka saman 50 ára sögu Mannvits og nú er komin út bókin Framfarir í 50 ár, 170 blaðsíður að lengd og prýdd fjölda mynda.  Atli Rúnar Halldórsson, fv. fréttamaður og nú ráðgjafi hjá Athygli hf ritaði bókina en umsjón með útgáfunni hafði Sigurður St. Arnalds, fv. stjórnarformaður Mannvits.  

Framfarir í 50 ár er safn svipmynda úr sögu fyrirtækisins og forvera þess en um leið þáttur í sögu atvinnulífs, framkvæmda og mannlífs á mesta framfararskeiði Íslandssögunnar. Í lok bókarinnar er jafnframt rakin saga Virkis hf, sem stofnað var árið 1969 sem samstarfsfyrirtæki nokkurra verkfræðifyritækja og sem vann margs konar brautryðjendastarf fyrir þau á Íslandi og erlendis.  

Forseta Íslands var afhent eintak af bókinni á Bessastöðum og er meðfylgjandi mynd tekin við það tilefni.  Á myndinni eru frá vinstri Atli Rúnar Halldórsson, forseti Íslands Hr Ólafur Ragnar Grímsson, Jón Már Halldórsson, stjórnarformaður Mannvits og Sigurður St. Arnalds.  Forseti Íslands hefur haft sérstakann áhuga á orkumálum og þar með verkefnum sem Mannvit hefur unnið á því sviði heima og erlendis.  

Bókin hefur verið send helstu viðskiptavinum og samstarfsaðilum Mannvits en auk þess er  bókin tiltæk á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins til frekari dreifingar til þeirra sem áhuga hafa á þessari merkilegu sögu.