Framkvæmdaeftirlit Kröflulína 3 - Mannvit.is
Frétt - 14.07.2019

Framkvæmdaeftirlit Kröflulínu 3

Framkvæmdir eru hafnar við Kröflulínu 3. Mannvit mun hafa framkvæmdaeftirlit fyrir Landsnet við gerð Kröflulínu 3, sem er 220 kV háspennulína frá Kröflu til tengivirkis Fljótdalsvirkjunar, um 120 km leið. Mannvit er með heildareftirlit með framkvæmdum línunnar. Verkefnið felst í eftirliti með gerð vegslóða, jarðvinnu og undirstaða fyrir háspennumöstur. Seinni hluti verksins er framkvæmdaeftirlit við byggingu stálmastra og strengingu á Kröflulínu 3. Línunni er ætlað að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi með betri samtengingu kerfanna og framleiðslueininganna á Þeistareykjum og í Fljótsdal. Landsnet segir að Kröflulína 3 sé afar mikilvægur hlekkur í styrkingu flutningskerfis raforku á Íslandi, eða fyrsta línan, til styrkingar og endurbyggingu á Byggðalínunni. Kostnaður við Kröflulínu 3 er áætlaður tæpir átta milljarðar. Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki í lok næsta árs.

Í viðtali í fréttum RÚV segir að Ágúst Margeirsson, byggingartæknifræðingur hjá Mannviti og eftirlitsmaður Landsnets við framkvæmdirnar „já, nú er raunverulega að hefjast fyrsti áfangi í verkinu, sem snýr að slóðagerð og uppsetningu á undirstöðum fyrir línuna. Það eru forsteyptar undirstöður sem verða settar niður og verið að koma með þær á staðinn. Og svo erum við hér að stika niður slóða og undirbúa verkið“. Í fréttum RÚV segir einnig að "Þrír verktakar vinna þennan fyrsta áfanga og er verkinu skipt upp í þrjú svæði.  Því eru framkvæmdir á allri línuleiðinni samtímis, auk þess sem verið er að koma upp vinnubúðum í Möðrudal. Og það þurfti að byggja nýja brú yfir Jökulsá á Dal við hlið einnar elstu brúar landsins sem ber ekki þá þungaumferð sem fylgir línuframkvæmdunum. „Upphafleg plön gerðu ráð fyrir að klára þennan áfanga í haust,“ segir Ágúst. „En það á náttúrulega eftir að sjá hversu veður og aðstæður leyfa okkur að vinna lengi.“

Mynd: RÚV.