Nordur Renewables Framleiðsla vetnis og metans við Hellisheiðarvirkjun
Frétt - 27.11.2019

Framleiðsla vetnis og metans við Hellisheiðarvirkjun

Kynning á drögum að tillögu að matsáætlun

Hafið er mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framleiðslu vetnis og metans í jarðhitagarðinum við Hellisheiðarvirkjun.  Í verksmiðjunni verður vetni framleitt með rafgreiningu og það síðan nýtt til að framleiða fljótandi endurnýjanlegt metan úr koldíoxíði úr útblæstri frá virkjuninni. Tæknin sem verður nýtt er á ensku nefnd „Power to Gas“ (PtG). Orkuþörf verksmiðjunnar er áætluð 25 MWe. Aðstæður á Hellisheiði þykja fýsilegar þar sem hægt verður að tengja verksmiðjuna fyrirliggjandi innviðum í jarðhitagarðinum og á virkjunarsvæðinu.

Ávinningurinn af þessu verkefni fyrir Ísland og samstarfsfyrirtæki er að geta minnkað losun á koldíoxíði og flutt út metangas sem eldsneyti, auk sölu á gasi, raforku, vatni og öðru sem þarf fyrir þennan iðnað. Koldíoxíð í útblæstri, sem annars fer beint út í andrúmsloftið, nýtist í framleiðslunni og dregur úr staðbundinni losun. Fyrirhuguð framkvæmd er talin hafa mjög takmörkuð neikvæð áhrif á umhverfið, þar sem ekki verður um losun mengandi efna eða frárennslis frá starfseminni til lofts, yfirborðs eða í jarðlög.

Nordur Renewables Iceland ehf. er framkvæmdaraðili verksins en mat á umhverfisáhrifum er unnið af Mannviti hf. Vert er að benda á að verkefnið er á frumstigi. Í drögum að tillögu að matsáætlun er fyrirhugaðri framkvæmd lýst og fjallað um þá umhverfisþætti sem teknir verða fyrir í mati á umhverfisáhrifum. Einnig er greint frá því hvaða gögn eru fyrir hendi og verða nýtt og hvaða athuganir er fyrirhugað að ráðast í sérstaklega í tengslum við mat á umhverfisáhrifum.

Öllum er frjálst að senda inn ábendingar eða athugasemdir bréfleiðis á neðangreint póstfang eða með tölvupósti á netföngin: audur@mannvit.is og gudmundur@nordurpower.is.


Mannvit hf.
Auður Andrésdóttir
Urðarhvarfi 6
203 Kópavogi

 

Frestur til að gera athugasemdir er til 13. desember 2019.

Drög að tillögu að matsáætlun má nálgast hér.

Ljósmynd af svæðinu er að finna hér.