Forathugun smávirkjanakosta - Mannvit.is
Frétt - 22.10.2018

Frummat smávirkjana

Smávirkjanasjóður SSNV auglýsir eftir umsóknum í Skref 1 sem er frummat smávirkjana. Tilgangur sjóðsins er að styrkja fyrstu skrefin í rannsóknum á mögulegum rennslisvirkjunum á Norðurlandi vestra sem eru undir 10 MW að stærð. Miðað er við fyrirliggjandi yfirlit á mögulegum rennslisvirkjunum sem upp eru taldir í skýrslu Mannvits 2018: Frumúttekt á smávirkjanakostum á Norðurlandi vestra. Þó er heimilt að bæta við fleiri virkjunarkostum með samþykki SSNV. Sjóðurinn veitir styrki til annars vegar:

Skref 1: Frummat smávirkjana og hins vegar

Skref 2: Mat á virkjanlegu rennsli, frummati hönnunar og byggingarkostnaðar. 

Öll gögn varðandi umsóknarferlið og skýrslu Mannvits er að finna hér á vef SSNV. 

Í skýrslunni eru taldir upp 82 hugsanlegir virkjunarkostir í landsfjórðungnum og hagkvæmni þeirra metin. Skýrslan er fyrst og fremst unnin eftir fyrirliggjandi upplýsingum frá ýmsum aðilum, s.s. Orkustofnun og Veðurstofu Íslands, en ekki var farið í vettvangsferðir á hugsanlega virkjunarstaði. Skýrslan er því aðeins fyrsta skrefið til að meta hvort virkjun einstakra vatnsfalla væri hagkvæm.

Að þessu sinni er auglýst eftir umsóknum í Skref 1: Frummat smávirkjana. Umsóknarfrestur er til og með 5. nóvember 2018. Verkefninu verður lokið fyrir 31. maí 2019 og hámarksfjöldi verkefna sem styrkt verða er átta talsins. Auglýst verður eftir umsóknum í Skref 2 í júní 2019.

Samið hefur verið við Mannvit um úttekt á þeim virkjunarkostum sem styrktir verða og sér SSNV um samningsgerð við fyrirtækið. Mótframlag umsækjanda er 100.000 kr. en SSNV greiðir annan kostnað við úttektina.

Umsóknir skulu sendar á netfangið: ssnv@ssnv.is en nánari upplýsingar veitir Ingibergur Guðmundsson, ingibergur@ssnv.is, s. 892 3080.