Location Study for a New Airport in Reykjavik Area - Mannvit.is
Frétt - 26.06.2015

Fullkönnun á flugvallarkostum lokið

Mannvit var helsti ráðgjafi stýrihóps ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group um athugun á flugvallarkostum á höfuðborgarsvæðinu. Þorsteinn R. Hermannsson hjá Mannviti var verkefnisstjóri stýrihópsins og starfaði með hópnum á verktímanum. Sérfræðingar Mannvits mátu rými og hindranir á hverju flugvallarstæði sem var til skoðunar og frumhönnuðu flugbrautir og athafnasvæði. Þá vann Mannvit frummat á stofnkostnaði og umhverfisáhrifum flugvallanna ásamt fleiri verkefnum fyrir stýrihópinn. 

Veðurstofa Íslands og Belgingur sáu um veðurfarslegar úttektir og ÍSOR lagði mat á náttúruvá. Sérfræðingar Isavia unnu frummat á mögulegum nákvæmnisaðflugum og loftrými við hvern flugvallarkost og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann kostnaðar-ábatagreiningu auk þess sem fleiri ráðgjafar komu að verkefni stýrihópsins.

Í stýrihópnum sátu Ragna Árnadóttir formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrir hönd ríkisins, Matthías Sveinbjörnsson fyrir hönd Icelandair og Dagur B. Eggertsson fyrir Reykjavíkurborg. 

Skýrslu stýrihópsins má nálgast hér. Einnig er skýrsla stýrihópsins ásamt öllum fylgiskjölum aðgengileg á heimasíðum innanríkisráðuneytisins og Reykjavíkurborgar.


Í fréttatilkynningu stýrihópsins segir meðal annars:

"Hvassahraun, sem er á mörkum Hafnarfjarðar og Voga, kemur vel út í samanburði við aðra flugvallarkosti þegar litið er til þátta eins og veðurfars, rýmis og hindrana, kostnaðar og umhverfismála. Þá kemur Hvassahraun best út þegar horft er til möguleika flugvallarstæða til að taka við flugumferð eða starfsemi umfram það sem nú er í Vatnsmýri.
Stýrihópurinn telur að nú liggi fyrir nægjanleg gögn til að raunhæfur samanburður á flugvallakostum á höfuðborgarsvæðinu liggi fyrir. Viðbótarrannsóknir þyrftu að koma til í tengslum við fullhönnun og undirbúning hugsanlegra framkvæmda. 

Í tillögum stýrihópsins er lagt til að aðilar samkomulagsins komi sér saman um næstu skref í málinu á grundvelli þeirra gagna sem aflað hefur verið:

 i) Flugvallarskilyrði í Hvassahrauni verði fullkönnuð næsta vetur með nauðsynlegum rannsóknum ásamt því að kortleggja rekstrarskilyrði      mismunandi útfærslu og hönnunar. 

 Náist samstaða um það leggur stýrihópurinn til að stofnað verði sameiginlegt undirbúningsfélag í þessu skyni. 

 ii) Samhliða telur stýrihópurinn nauðsynlegt að samkomulag náist um rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri á meðan nauðsynlegur    undirbúningur og eftir atvikum framkvæmdir fara fram. Að sama skapi þarf að eyða óvissu um framtíð æfinga, kennslu- og einkaflugs."