Fyrirmyndarfyrirtæki Í Góðum Stjórnarháttum 2022
Frétt - 29.08.2022

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Mannvit hefur hlotið viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Viðurkenningarnar voru veittar við hátíðlega athöfn á Nauthóli, að viðstöddum fulltrúum 16 fyrirtækja sem hlutu viðurkenninguna að þessu sinni. Samtök atvinnulífsins, Stjórnvísi, Viðskiptaráð og Nasdaq Iceland veita viðurkenningarnar. Sigurður Sigurjónsson stjórnarformaður Mannvits veitti viðurkenningunni móttöku þann 26.ágúst ásamt stjórnarformönnum fyrirtækjanna sem hlutu viðurkenninguna að þessu sinni.

Viðurkenningin byggir á úttekt á góðum stjórnarháttum og tekur mið af leiðbeiningum gefnum út af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq Iceland. Sérstakur fagaðili á vegum Stjórnvísi annast mat á úttektum til viðurkenninga á „Fyrirmyndarfyrirtækjum um góða stjórnarhætti“. Líkanið sem notað hefur verið er kallað Stjórnarháttademanturinn og var þróað af Dr. Eyþóri Ívari Jónssyni.

Mörg fyrirtækjanna á markaði

Alls hlutu sextán fyrirtæki nafnbótina að þessu sinni. Þau eru Arion banki hf., Eik fasteignafélag hf., Íslandssjóðir hf., Kvika banki hf., Landsbankinn hf., Lánasjóður sveitarfélaga ohf., Reginn hf., Reiknistofa bankanna hf., Reitir hf., Stefnir hf., Sýn hf., TM hf., Vátryggingafélag Íslands hf., Vörður hf. og Ölgerðin Egill Skallagríms hf. ásamt Mannvit hf.

Aukið gagnsæi og trúverðugleiki 

Tilgangur viðurkenningarinnar er að stuðla að góðum stjórnarháttum með því að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnenda fyrirtækja og auðvelda þeim þannig að rækja störf sín. Markmiðið er að matsferlið auki trúverðugleika og gagnsæi stjórnarhátta fyrirtækja gagnvart hluthöfum og öðrum hagsmunaaðilum. Í verkefninu felst að öllum fyrirtækjum gefst tækifæri til að undirgangast formlegt mat á starfsháttum stjórnar og stjórnenda sinna. Mannvit er eitt þeirra fyrirtækja sem gefið hafa út ársskýrslu sína á vef fyrirtækisins eða í prentútgáfu í 14 ár, einmitt til þess að auka gagnsæi og trúverðugleika.