Góðir stjórnarhættir Mannvits - Mannvit.is
Frétt - 11.04.2018

Fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum 2017-2018

Mannvit hefur hlotið viðurkenningu sem Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum 2017-2018 frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands. Viðurkenningin byggir á úttekt á góðum stjórnarháttum og tekur mið af leiðbeiningum gefnum út af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq Iceland. Jón Már Halldórsson stjórnarformaður Mannvits veitti viðurkenningunni móttöku í hátíðarsal HÍ þann 10.apríl ásamt forsvarsmönnum fimmtán fyrirtækja sem heiðruð voru við sama tilefni. Tilgangur viðurkenningarinnar er að ýta undir umræður og aðgerðir til betri stjórnarhátta ásamt því að hvetja fyrirtæki til þess að efla góða stjórnarhætti og skapa þannig aukið traust. Markmiðið er að matsferlið auki trúverðugleika og gagnsæi stjórnarhátta fyrirtækja gagnvart hluthöfum og öðrum hagsmunaaðilum.

Önnur fyrirtæki sem hlutu viðurkenningu eru; Advania Norden, Arion banki, EIK fasteignafélag, Isavia, Íslandsbanki, Íslandssjóðir, Landsbankinn, Marel, Reiknistofa bankanna, Reitir, Stefnir, Tryggingamiðstöðin, Vátryggingafélag Íslands og Ölgerðin Egill Skallagrímsson.