Mygluleitarhundur Próf
Frétt - 03.10.2019

Mygluleitarhundur vottaður og tekur til starfa

Eina vottaða hundateymið til mygluleitar á landinu tók og stóðst próf þann 25. september og fékk í framhaldi af því vottun um að það uppfylli kröfur um árangursríka leit að myglu í húsum.

Verkefnið er samstarfsverkefni verkfræðistofunnar Mannvits hf. og Allir hundar ehf, en þessi merki áfangi hefur átt sér um tveggja ára aðdraganda. Í desember 2017 tók Mannvit þátt í að fá Dr. Wolfgangs Lorenz, sem er mjög framarlega í allri umræðu um rakaskemmdir í Þýskalandi, til að halda fyrirlestur í Reykjavík í desember 2017. Í framhaldi af því komst á samband Einars Ragnarssonar sviðsstjóra hjá Mannviti og Jóhönnu hundaþjálfara og úr því varð samstarf sem hefur leitt til þess að nú er til íslenskt hundateymi sem er sérhæft og með vottun til að leita rakaskemmda í húsum.

Þjálfun, próf og vottun

Hundurinn Hanz er þýskur fjárhundur (Schäfer) í eigu Jóhönnu Þorbjargar Magnúsdóttur sem hefur verið með hundinn í þjálfunin í meira en ár. Prófið er samræmt próf, sem þýsk samtök aðila sem vinna að leit og lagfæringum rakaskemmda, Bundesverband Schimmelpilzsanierung e.V. eða BSS og Dr. Lorenz er forsvarsmaður fyrir, hafa skilgreint og útfært og bjóða upp á. Prófið hefur verið notað í fjölda ára og hefur verið lagt fyrir hundateymi frá mörgum löndum. Mannvit er samstarfsaðili samtakanna og fékk prófdómara til Íslands til þess að tryggja fullt samræmi við ströngustu kröfur. Jóhanna og Hanz þreyttu próf þar sem þau sem teymi áttu innan stífra tímamarka að finna skemmt byggingarefni sem falið hafði verið í prófunarhúsnæðinu. Þau stóðust prófið með sóma og náðu 100% árangri. Vottunin er mikilvægur gæðastimpill og sýnir að mikil vinna og ströng þjálfun við mjög sérhæfða leit hefur skilað frábærum árangri.

„Þetta er búið að vera gríðarleg vinna síðasta árið en mikið sem það er gaman að uppskera. Hanzi gerði sér lítið fyrir og fór villulaust í gegnum próf. Mér líður stundum meira eins og forritara heldur en hundaþjálfara þegar ég vinn með hann. Hann er með gríðargott minni og er alltaf jákvæður og sannur í öllum sínum verkefnum - heppin ég að hafa eignast svona frábæran vinnufélaga“ segir Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir, hundaþjálfari og eigandi hundsins.

Skilvirkari leit að leyndri myglu

Notkun á hundum við mygluleit er aðferð sem hefur verið notuð áratugum saman víða erlendis og er mikilvægur þáttur í greiningu skemmdra bygginga. Aðferðin er viðurkennd af Umhverfisstofnun Þýskalands sem aðferð til að leita að leyndri myglu og Einar vonast til þess að notkun mygluleitarhunda hér muni gera alla vinnu við mygluleit skilvirkari. „Maðurinn er takmarkaður af því að hann hefur aðeins takmarkaða getu til að finna annað en sýnileg ummerki um rakaskemmdir. Hann leitar oftast að rakaskemmdum eða rakablettum sem geta verið vísbending um að þar gæti leynst mygla,“ segir Einar.

 

Frekari upplýsingar veitir Kristján Guðlaugsson; kristjang@mannvit.is - 842 3156. Upplýsingar um þjónustu okkar á sviði mygluleitar og innivistar.