Gagnaver Verne opnað - Mannvit.is
Frétt - 08.02.2012

Gagnaver Verne opnað

Mannvit eitt þeirra sérhæfðu þekkingarfyrirtækja sem koma að uppbyggingu gagnaversins

 

Gagnaver Verne Global að Ásbrú í Reykjanesbæ var opnað í dag að viðstöddum Oddnýju G. Harðardóttur, starfandi iðnaðarráðherra, og Árna Sigfússyni bæjarstjóra í Reykjanesbæ.

 

Mannvit er eitt þeirra sérhæfðu þekkingarfyrirtækja sem koma að uppbyggingu gagnaversins. Mannvit sá um alla verkfræði- og arkitektahönnun umgjarðarinnar utan um gagnaver Verne í byggingu KEF201 við Valhallarbraut 868 í Reykjanesbæ. Undirverktaki Mannvits var arkitektastofan TARK.  Verkefni Mannvits var að sjá um hönnun allrar ytri umgjarðar gagnarýmis sem breska fyrirtækið Colt lagði til og sett var saman á staðnum.

 

Tölvusalurinn og fylgibúnaður hans samanstendur af verksmiðjuframleiddum einingum sem raðað var saman á staðnum af undirverktaka framleiðanda. Mannvit sá um raftengingar ofan nefnds búnaðar og allt 11kV dreifikerfið sem þjónar salnum ásamt vararafstöðvum, spennistöð, hönnun jarðskauta og eldingavarnarkerfis.  Þá sá Mannvit um hönnun allra annara rýma í húsinu sem hýsir tölvusalinn.  Kælibúnaður gagnaversins er án vélrænnar kælingar og sá Mannvit um hönnun inntaks- og útkastbúnaðar fyrir kælibúnaðinn.  Mannvit sá um breytingu á burðarvirki hússins sem var nauðsynlegt til þess að hægt væri að koma tölvusalnum fyrir í vörugeymslunni.  Þá sá Mannvit um hönnun rýma utan um vararafstöðvar fyrir áðurnefndan tölvusal og öll hjálparkerfi vararafstöðvanna.  Mannvit var einnig með eftirlit með framkvæmdinni. Gert er ráð fyrir að um hundrað störf skapist í gagnaverinu þegar reksturinn verður kominn á fullan skrið, en gagnaverið á að vera fullbúið árið 2017.

 

Samkvæmt tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu hefur verið unnið markvisst að uppbyggingu á alþjóðlegu gagnaveri sem selji þjónustu sína til stórra fyrirtækja í Bandaríkjunum og Evrópu. Með tilkomu gagnaversins skapist jafnframth ýmis tækifæri fyrir fyrirtæki sem nýti sér þjónustu gagnavera að staðsetja sig nálægt gagnaverinu á Ásbrú. Allar tengingar séu með besta móti bæði með tilliti til rafmagns- og gagnatenginga.

 

Mynd: Verne Data center