Ný Flokkunarlína SORPU Álfsnesi
Frétt - 18.06.2020

Ný sorpflokkunarlína tekin í notkun hjá SORPU

Ný flokkunarlína fyrir úrgang var tekin í notkun í dag í móttökustöð SORPU í Gufunesi og hefst þar nú prófunarferli á flokkun úrgangs frá heimilum. Flokkunarlínan er veigamikið skref í aðdraganda þess að hafin verði tilraunavinnsla í nýrri gas- og jarðgerðarstöð (GAJA) í Álfsnesi. Nýja flokkunarlínan tekur við lífrænum úrgangi heimila á höfuðborgarsvæðinu, hreinsar úr honum plast og málma og býr til hreinan efnisstraum sem er hæfur til vinnslu í GAJA. 

Mannvit sér m.a. um alla verkfræðiráðgjöf vegna nýrrar gas- og jarðgerðarstöðvar sem Sorpa reisir í Álfsnesi. Mannvit sér um gerð útboðsgagna, samningsgerð, rýni tæknigagna, skjalastjórnun og verkutanumhald.

Urðun hætt á lífrænum úrgangi heimila 

Þegar gasgerðar- og jarðgerðarstöðin GAJA eins og hún mun heita, fer í rekstur í júlí verður hætt að urða lífrænan úrgang frá heimilum á svæðinu en í stað þess verða unnin úr honum gas- og jarðgerðarefni. SORPA áætlar að nýja stöðin muni "minnka losun koltvísýrings um 90 þúsund tonn á ári sem jafngildir því að taka 40 þúsund bensín- eða díselbíla úr umferð og hægt verður að nýta innlenda orku í auknum mæli í stað innflutts eldsneytis.  Auk þriggja milljón normalrúmmetra af metani verða til í stöðinni árlega um 12 þúsund tonn af moltu sem nýtt verður til almennrar landgræðslu og jarðarbóta."

Guðmundur Ólafsson vélaverkfræðingur, kom að framkvæmdinni á nýju gas- og jarðgerðarstöðinni á Álfsnesi og fræðir okkur einmitt um hvað fer fram í þessari nýju gas- og jarðgerðarstöð í hlaðvarpi Mannvits og almennt um framleiðsluna á metani og notagildi þess fyrir okkur. Flokkunar- og sorpmál hafa verið ofarlega á baugi síðastliðin ár og varla nokkur sem hefur farið varhluta af því að þurfa að læra að flokka heima hjá sér. En hvað verður svo um sorpið okkar þegar það fer frá okkur? Hægt er að hlíða á hlaðvarpið í spilaranum að neðan, eða á Spotify og Apple Podcasts.

Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Guðmund Ólafsson vélaverkfræðing vegna sorpmála, metanvinnslu eða endurnýjanlegs eldsneytis.