Hotel Marriott Edition and Apartments - Mannvit.is
Frétt - 03.10.2013

Gengið frá greiðslu hótellóðar við hlið Hörpu

Þann 1. október var gengið frá greiðslu fyrir hótellóð við hlið Hörpu að Austurbakka 2. Auro Investment ehf. (AI) er því formlega orðinn eigandi lóðarinnar en eigendur AI eru verkfræðistofan Mannvit, Auro Investment Partners LLC og arkitektastofan T.ark. AI og Situs ehf. skrifuðu undir kaupsamning þann 1. ágúst síðastliðinn sem var háður fyrirvörum um fjármögnun og áreiðanleikakönnun.

Frágangur á greiðslu er mjög stór áfangi í verkefninu. Byggingamagn á lóðinni er 30.000 m2, þar af mun hótelið verða um 17.000 m2 en 13.000 m2 fara í íbúðir, verslanir og bílakjallara. Áætlaður framkvæmdakostnaður er á bilinu 12-14 milljarðar króna og verður Mannvit með EPCm samning á verkefninu. Áætlanagerð og frumhönnun er nú þegar hafin. Gengið verður frá samningum við hótelrekanda í þessum mánuði en hótelið verður annaðhvort Marriott eða W hótel.