
Gjörbylting í mygluleit
Einar Ragnarsson, sviðsstjóri hjá Mannviti segir í viðtali við Fréttablaðið þann 13.maí að notkun á hundum við mygluleit „er aðferð sem hefur verið notuð áratugum saman víða erlendis og gefið góða raun. Notkun mygluleitarhunda er viðurkennd af Umhverfisstofnun Þýskalands sem aðferð til að leita að leyndri myglu.“ Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir er sérfræðingur í hundaþjálfun og hefur undanfarið ár þjálfað hundinn Hanz í leit að myglu. Þjálfunin er samstarfsverkefni verkfræðistofunnar Mannvits hf. og Allir hundar ehf. „Þjálfunin hefur gengið mjög vel. Hundurinn er mjög traustur, hann svíkur mig aldrei. Ef eitthvað klikkar þá er það mér að kenna,“ segir Jóhanna hlæjandi. „Ég er rosalega spennt að byrja að starfa með honum við þetta.“ Verkefnið á sér tveggja ára aðdraganda. Einar Ragnarsson, sviðsstjóri mannvirkja og umhverfis hjá Mannviti, hafði samband við Jóhönnu og óskaði eftir því að hún þjálfaði hund í mygluleit. „Upprunalega var hugmyndin að þjálfa tvo hunda. En við ákváðum að bíða aðeins með það og byrja á einum. En markmiðið er að þeir verði tveir. Því hundar geta forfallast eins og við. Þeir geta fengið kvef og annað og þá er gott að hafa af leysingu,“ segir Einar.
Áratuga reynsla
„Þetta er aðferð sem hefur verið notuð áratugum saman víða erlendis og gefið góða raun. Við höfum verið í samstarfi við þýsk samtök eigenda slíkra hunda og kynnt okkur málið. Notkun mygluhunda er viðurkennd af umhverfisstofnun Þýskalands sem aðferð til að leita að leyndri myglu,“ segir Einar. „Eftir að við komumst í samband við Jóhönnu fengum við hana til þess að fara út til Kölnar til að kynna sér þjálfun og notkun á slíkum hundum,“ bætir hann við. Jóhanna hefur einnig setið námskeið vegum Frontex, landamæragæslu Evrópusambandsins. „Þar lærði ég að kenna hundum efnaleit, sprengjuleit og fíkniefnaleit. Ég byggði svo ofan á það í þjálfuninni.“ Einar vonast til þess að notkun mygluhunda muni gera alla vinnu við mygluleit skilvirkari. „Maðurinn er takmarkaður af því að hann leitar að sýnilegum ummerkjum um myglu. Hann leitar oftast að rakaskemmdum eða rakablettum sem geta verið vísbending um að þar gæti leynst mygla,“ segir Einar. „Notkun hunda er skilvirkari. Þegar hundurinn kemur inn í rými sýnir hann kannski bara einum vegg af fjórum einhvern áhuga. Þá getum við einbeitt okkur að þeim eina vegg og útilokað hina.“ Einar segir engin tæki til sem hægt er að reiða sig á til að greina myglu. „Þú getur fengið svörun á myglu í nánast öllum húsum. Sérstaklega ef þú reynir að greina hana að sumri til við opinn glugga. Þú getur á engan hátt einangrað það hvaðan myglugróin koma.“
Varla kynnst betri hundi
Hundurinn Hanz hefur verið í þjálfun hjá Jóhönnu allt síðasta ár og er að verða tilbúinn að hefja vinnu sem mygluhundur. Jóhanna segir að mygluhundar geti verið af ýmsum tegundum, en þeir þurfa að búa yfir ákveðnum eiginleikum og hafa þol til að sinna verkinu. „Honum er í rauninni kennt gegnum leik. Hann fær verðlaun og þetta er allt mjög jákvætt. Það er ekki hægt að þvinga hund til að nota nefið. Þetta þarf að vera skemmtilegt fyrir hann. Það er mikilvægt að hann upplifi jákvæðar tilfinningar gagnvart verkefninu,“ segir Jóhanna og bætir við: „Þetta er eiginlega það skemmtilegasta sem hann veit. Einu skiptin sem hann er ósáttur við mig er þegar við þurfum að hætta.“ Jóhanna segir að allt líf Hanz, umhirða og meðhöndlun snúist um leitina. En hann þarf ekki að kvarta undan því. „Hann býr hjá mér og er bara heimilishundur, hann er ofsalega prúður og ljúfur og í miklu uppáhaldi hjá börnunum mínum. Hann er sennilega með betri hundum sem ég hef kynnst í minni hundaþjálfunartíð. Það er mjög sérhæft hvernig ég skilyrði hann á lyktina. Við erum í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri og fáum send sýni frá þeim.
Reynsla frá öðrum löndum
Hanz kemur frá þaulreyndum hundaræktendum í Svíþjóð. Þau hafa ræktað hunda í 20-30 ár, eingöngu til vinnu. Hanz var að verða eins árs þegar hann byrjaði í þjálfuninni og er í góðum gír núna,“ segir Jóhanna. „Mannvit er þegar orðinn meðlimur í alþjóðasamtökum aðila sem nota mygluhunda. Öll þjálfun á hundinum og allur undirbúningur tekur mið af því hvernig menn gera þetta í Þýskalandi,“ segir Einar. „Við munum byrja með þessa þjónustu fljótlega, hundurinn er rétt að verða tilbúinn. Við bindum vonir við að þessi nýja aðferð auðveldi mygluleit og komi með nýjan vinkil á þessi mál,“ segir Einar.
Hafðu samband við sérfræðinga Mannvits eða kynntu þér þjónustu Mannvits við greiningu og aðgerðir gegn myglu og rakaskemmdum.
Fjallað var um mygluleitarhundinn í fréttum Stöðvar 2 og hér á vísir.is.
Mynd: Fréttablaðið/Stefán.