Guðlaug Akranesi Mannvit
Frétt - 20.12.2019

Guðlaug hlýtur Umhverfisverðlaun Ferðamálstofu

Guðlaug, heit laug í grjótvörn við Langasand á Akranesi, hlaut Umhverfisverðlaun Ferðamálstofu árið 2019. Guðlaug var formlega opnuð í desember 2018 og hefur notið mikilla vinsælda en um 30 þúsund gestir hafa heimsótt laugina á þessu eina ári. Mannvit á Akranesi sá um gerð útboðsgagna og hafði umsjón með útboði, en hönnuðir í Kópavogi sáu um burðarþolshönnun, raflagnahönnun og lagnahönnun auk stjórnkerfis ásamt ráðgjöf á framkvæmdatíma.  Þess má geta að aðalverktakinn ÍSTAK breytti mannvirkinu úr staðsteypu í forsteyptar einingar til að auðvelda framkvæmdina í sjávarmálinu fyrir opnu hafi.

Laugin samanstendur af útsýnispalli, heitri laug og síðan grynnri laug sem nýtur vatns úr yfirfalli efri laugarinnar. Mannvirkið er fyrsta sinnar tegundar hér á landi og fellur vel að þörfum útvistarsvæðisins við Langasand, í miðjum grjótgarði fyrir opnu hafi. Hönnunin var unnin af Basalt arkitektum og Mannvit verkfræðistofu. Að framkvæmdinni komu m.a. Ístak, Vélaleiga Halldórs Sig., Rafþjónusta Sigurdórs, Pípulagningaþjónustan og Trésmiðjan Akur.

Verðlaunin eru veitt í fjórða sinn veitt fyrir verkefni sem hlutu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða og voru til fyrirmyndar. Það þýðir að verkefninu sé lokið, reglum framkvæmdasjóðsins fylgt og það hafi verið í samræmi umhverfistefnu Ferðamálstofu og áherslur Framkvæmdasjóðsins um sjálfbæra þróun, gæði hönnunar og skipulags.

 

Ljósmyndir: Ferðamálastofa