Hótel og íbúðir við hlið Hörpu - Mannvit
Frétt - 20.08.2015

Hótel Marriott Edition mun rísa við Hörpu

Í dag var skrifað undir samninga um kaup Carpenter & Company á hótelreitnum við Hörpu og að þar verði starfrækt Marriott Edition hótel. Bandaríska fasteignafélagið Carpenter & Co. verður leiðandi í byggingu 250 herbergja, fimm stjörnu hótels sem mun rísa við Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík. Hótelið verður The Reykjavik Edition og hluti af Marriott Edition keðjunni. Mannvit mun sjá um alla verkfræðihönnun og hafa umsjón með byggingarframkvæmdum.

Í tilkynninu vegna undirritun samnings segir að “Líkt og greint var frá fyrr á árinu, þegar tilkynnt var að Carpenter & Company hefðu áhuga að koma að verkefninu, hefur markmiðið frá upphafi verið að byggja hótel af bestu gerð sem starfrækt verði undir merkjum alþjóðlega viðurkenndrar hótelkeðju. Aðstandendur  verkefnisins eru því ánægðir að tilkynna um aðkomu Marriott International að verkefninu. Marriott Edition hótel á þessum sérstaka stað við Reykjavíkurhöfn og Hörpuna mun bjóða upp á einstaka upplifun og efla svæðið í kring.

Arion banki hefur gegnt mikilvægu hlutverki í verkefninu og komið að ýmsum hliðum þess m.a. við   lánsfjármögnun og skipulag á fjármögnun verkefnisins og áttifrumkvæði að aðkomu fjárfesta sem nú munu leiða verkið, Eggerts Dagbjartssonar og Carpenter & Co. Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka er ánægður með aðkomu bankans að verkefninu: „Við höfum lagt ríka áherslu á að fá að þessu verkefni hæfa og reynda aðila og fundum þá í Carpenter & Company og Eggert Dagbjartsson sem koma að borðinu með mikla reynslu af hótelverkefnum í Norður-Ameríku í samstarfi við alþjóðlegar hótelkeðjur. Samningur um Marriott Edition hótel á Hörpureitnum sýnir að verkefnið er komið í góðan farveg. Það er mikilvægt að á þessum góða stað í höfuðborginni verði að öllu leyti vel að verki staðið og höfum við fundið til ábyrgðar hvað það varðar. Því er mjög ánægjulegt að þessum áfanga sé náð.“         

Mannvit og T.Ark hanna hótelið

Mannvit og teiknistofan T.ARK hafa gegnt mikilvægu hlutverki við þróun og skipulag verkefnisins og munu halda áfram vinnu við hönnun og framhald verkefnisins. "Við sem höfum komið að þróun þessa verkefnis frá upphafi erum mjög ánægð með að búið sé að ná samningum við Marriott og hlökkum því til að halda áfram að þróa, hanna og byggja fimm stjörnu hótel Marriott Edition á Íslandi með Carpenter & Co“ segir Tryggvi Jónsson, framkvæmdastjóri hjá Mannviti.   

Ásgeir Ásgeirsson, framkvæmdastjóri T.ARK er sama sinnis. Að hans sögn ríkir mikil tilhlökkun um fyrirhugað samstarf við Marriott Edition og verða ítrustu kröfur um útlit og notkunarmöguleika hótelsins hafðar í huga við hönnunina: “Við hlökkum til að takast á við þetta verkefni, sem verður bæði krefjandi og spennandi. Við hönnun á fimm stjörnu hótels sem þessu munum við m.a. hafa í huga kröfur eigandans, væntingar gestanna og möguleika staðsetningarinnar þannig að úr verði glæsileg viðbót við umhverfi Hörpu og Austurhafnarinnar.”    

Lögmenn Bárugötu ásamt KPMG á Íslandi eru ráðgjafar Carpenter & Co. í verkefninu. Haraldur Flosi Tryggvason lögmaður tekur í sama streng og sagði við tilefnið í dag að "Carpenter & Co. hefur lagt mikla vinnu í verkið og að samningar hafi náðst um kaupin og aðkomu Marriott er góður áfangi."    

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hótelsins geti hafist snemma á næsta ári."