Áform óbreytt um hótel - Mannvit.is
Frétt - 08.05.2018

Áform óbreytt um hótel

Í tengslum við fréttir Morgunblaðsins um byggingu hótels Marriott Edition var viðtal við Eggert Dagbjartsson og Richard Friedman, sem standa að byggingu hótelsins í Morgunblaðinu þann 5.maí 2018. Hér er viðtalið birt í heild sinni til þess að skýra tafir sem orðið hafa á verkefninu:

Stjórn Cambridge Plaza segir áform óbreytt:

Áætla kostnaðinn 17,5 milljarða

Vegna umfjöllunar um kostnað vegna byggingar Marriott Edition hótelsins við Austurbakka sendi stjórn Cambridge Plaza, sem stendur að byggingunni, út yfirlýsingu í gær þar sem segir að „samkvæmt áætlunum sem gerðar voru í ársbyrjun 2016 var gert ráð fyrir að kostnaður við byggingu hótelsins næmi um 16 milljörðum króna. Uppfærð áætlun gerir ráð fyrir að kostnaður við byggingu geti numið allt að 17,5 milljörðum króna. Í erlendum gjaldmiðlum hefur kostnaðurinn aukist meira, þar sem gengi íslensku krónunnar hefur styrkst umtalsvert á undanförnum árum [30% breyting á gengi dollars sem var 134 kr. við gerð samninga en 103 kr. í dag]. Á móti hefur vænt verðmæti byggingarinnar aukist umtalsvert og allar forsendur fyrir rekstri hótelsins þróast með jákvæðum hætti. Þar af leiðandi hafa engar grundvallarbreytingar orðið á verkefninu og áformum Cambridge Plaza um rekstur hótelsins.“

***

Ekki reynsla af byggingu fimm stjörnu hótels hér

Miklar kröfur og flókin samræming ráðgjafar veldur því að opnun tefst um ár.

Það sem reynst hefur hvað flóknast við byggingu Marriott Edition hótelsins sem rís við hlið Hörpu, er sú staðreynd að enginn þeirra innlendu aðila sem komið hafa að þessu verkefni hefur áður tekið þátt í að byggja fimm stjörnu hótel, að sögn Eggerts Dagbjartssonar og Richards Friedman, forstjóra Carpenter & Company, sem standa að verkefninu. Morgunblaðið hitti þá að máli í sérstakri aðstöðu í Reykjavík þar sem væntanleg herbergi hótelsins eru þróuð í módelum í raunstærð.

Gífurlegur fjöldi ráðgjafa

Eggert segir gerð fimm stjörnu hótels krefjast gífurlegs fjölda ráðgjafa og sérfræðinga. „Fjöldi fólks í Bandaríkjunum er að vinna í þessu verkefni frá Edition, frá Marriott, frá Roman & Williams, ljósahönnuðir og fleiri og fleiri. Það er því ótrúlegur fjöldi ráðgjafa sem kemur að verkefninu. Enginn hér á landi hefur reynslu af slíku umhverfi. Friedman bendir á að fyrir hótel af þessum gæðum dugi ekki að kaupa innanstokksmuni í gegnum bæklinga. „Allt í módelherbergjunum hérna er sérsmíðað og hannað fyrir þetta tiltekna hótel. Þetta er er mjög flókið. Röksemdin fyrir að hótel fær fimm stjörnur liggur í því að það er ekki steypt í sama mót og önnur. Marriott valdi nafnið „Edition“ á fimm stjörnu hótel sín af því að hvert þeirra er sérútgáfa. Engin tvö eru eins“.  

Marriott gerir gífurlegar kröfur, að sögn Friedmans. „Það má segja að hlutverk okkar felist í raun í því að smala köttum,“ segir hann og hlær við. „Það er fjöldi fólks sem kemur að málum og við þurfum að samræma það. En það er okkar starf.“ Eggert bendir á að Marriott myndi aldrei heimila neinum öðrum að taka ákvarðanir sem snerta vörumerki þess. „Það að fá heimild til þess að reisa „Edition“-hótel krefst undirritunar á 30 ára rekstrarsamningi (e. Management Agreement) við Marriott. Í því felst að þeir ráða í raun nánast öllu og þeir hafa mjög vel skilgreind gæðaviðmið.“ Eggert segir þetta ferli hafa tekið töluvert lengri tíma hér en venja er, enda takmörkuð reynsla hér á landi af því að gera 30 ára rekstrarsamning af þessu tagi.

Það sem skilur Marriott Edition hótelið frá öðrum hótelum sem rekin eru undir alþjóðlegum vörumerkjum hérlendis, svo sem Hilton og Canopy, er að vörumerkið verður ekki leigt. „Hópurinn sem stendur að baki verkefninu mun eiga hótelið en Marriott mun stýra því.“ Þeir benda jafnframt á að þrátt fyrir reynslu alþjóðlegu ráðagjafanna af því að reisa fimm stjörnu hótel, hafi þeir líklega aldrei komið áður að slíku verkefni í landi þar sem hótel af þessu tagi hefur ekki verið reist áður. Það geri hlutina einnig snúnari.

Hefur þegar seinkað um ár

Friedman segir að flækjustig verkefnisins, með þann alþjóðlega hóp sem að því stendur, hafi valdið því að það hefur gengið heldur hægar en að var stefnt. Opnun hótelsins tefst að minnsta kosti um ár og er nú áætlað að það verði tilbúið seint á árinu 2019 eða snemma á árinu 2020. „Þetta hótel mun standa í að minnsta kosti hundrað ár. Þótt því seinki um eitt ár þá mun heimurinn ekki farast,“ segir Richard Friedman.