Planning Consultants for Development & Industry - Mannvit.is
Frétt - 15.04.2015

Hótel og íbúðir við Hörpu

Í dag er undirritaður samningur um kaup bandaríska fasteignafélagsins Carpenter & Company á byggingarétti fyrir hótel á Austurbakka 2. Carpenter & Company hefur jafnframt gengið frá samningum við Mannvit og T.ark-arkitekta um hönnun og stjórnun framkvæmda við hótelið.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við hótelið og íbúðarhúsnæði á nærliggjandi lóð geti hafist á haustdögum og að hótelið verði opnað vorið 2018. „Hér erum við að feta okkur inn á nýja braut sem verkfræði- og tæknifyrirtæki með því að halda utan um allt verkefnið frá upphafi til enda, þ.e. tilboðsgerð, fjármögnun, samningagerð við hótelrekanda, hönnun, útboð, innkaup, byggingastjórnun, eftirlit og afhendingu mannvirkis“, segir Tryggvi Jónssyni, framkvæmdastjóra mannvirkja hjá Mannviti. Heildarfjárfesting verkefnisins er áætluð um 14 milljarðar króna en í heild verða rúmlega 250 herbergi í hótelinu auk 90 íbúða og verslana í þeim fimm byggingum sem verða reistar næst hótelinu. Mannvit mun sjá um verkefnastjórnun, hönnun og heildarumsjón verkefnisins. Áætlanagerð og frumhönnun er nú þegar hafin.

Carpenter & Company mun verða leiðandi fjárfestir í verkefninu. Carpenter er viðurkenndur rekstraraðili hótelverkefna í Norður Ameríku og hefur náð miklum árangri á því sviði, m.a. með samstarfi við hótelkeðjur eins og St. Regis, Four Seasons, Marriott, Hyatt og Starwood. Carpenter mun reisa fyrst flokks hótel á lóðinni og í framhaldinu fela rekstur þess í hendur leiðandi alþjóðlegs hótelrekstraraðila.

Fyrsta flokks hótel

Hótelið við Austurhöfn er ætlað sem ráðstefnuhótel fyrir Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík. Hótelið verður á sex hæðum auk kjallara og um 16.400 m² að stærð. Hótelið mun hafa 250 herbergi, veitingastað og bari, fundarherbergi, veislusal, heilsulind og önnur þægindi sem hæfa gæðahóteli. Við hlið hótelsins verður 21 stæðis bílakjallari sem mun tengjast bílakjallara Hörpunnar og nýta innkeyrslu með honum. 

Íbúða- og verslunarbygging
Byggingin er staðsett við Austurbakka hafnarsvæðisins í miðbæ Reykjavíkur við hlið hótelsins. Byggingin sem verður um 13.400 m² samanstendur af jarðhæð sem liggur meðfram götunum þremur í kringum lóðina, Austurbakki, Geirsgata og Reykjastræti. Megnið af jarðhæðinni er ætlað fyrir verslanir og veitingastaði að frátöldum inngöngum í íbúðirnar. Yfir jarðhæðinni eru fimm hæðir af íbúðum í fimm aðskildum kjörnum. Þeir móta húsagarð sem er aðskilinn frá nærliggjandi götum og er ætlaður íbúum. Bílakjallari og geymslur eru svo staðsettar í kjallara.