Harpa opnar - Mannvit.is
Frétt - 13.05.2011

Harpa opnar

Harpa, nýtt tónlistar- og ráðstefnuhús Íslendinga, var formlega opnuð við hátíðlega athöfn þann 13 maí 2011. Mannvit gegndi veigamiklu hlutverki í hönnun og byggingu hússins og var hluti af Portus hópnum sem átti verðlaunatillögu í hönnun hússins ásamt verkfræðistofunum Ramboll og Hnit. Henning Larsen Architects og Batteríið arkitektar teiknuðu húsið ásamt Ólafi Elíassyni listamanni. ÍAV voru al-verktakar hússins en Mannvit hannaði burðarvirki, lagna- og lofræstikerfi, rafkerfi, brunatækni, götur og veitulagnir.

 

Í húsinu er fyrsta flokks aðstaða fyrir allt tónlistarlíf á Íslandi og mikill sveigjanleiki til að taka við stórum og smáum viðburðum. Með húsinu aukast verulega möguleikar á að hýsa ráðstefnur, fundi og aðra viðburði af mismunandi stærðum í Reykjavík. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska óperan verða framvegis með aðstöðu í þessum glæsilegu húsakynnum.

 

Helsta kennileiti Reykjavikur?

Markmiðið með einstakri  hönnun glerhjúps Hörpunnar sem Ólafur Elíasson listamaður hannaði er m.a. að byggingin verði eitt helsta kennileiti Reykjavíkur. Það kemur ekki á óvart ef svo verður enda er húsið 28.000 fermetrar að stærð, rís í 43 metra hæð frá götu og er staðsett á besta stað við gömlu höfnina í Reykjavík. Botnplata hússins er um 8.000 fermetrar og í húsið fóru samtals um 2.500 tonn af burðarstáli og 4.000 tonn af bendistáli. Úr grunni hússins var mokað í burtu á annað hundrað þúsund rúmmetrum af jarðvegi og um sex milljónum tonna af sjó var dælt upp úr grunninum á meðan framkvæmdum stóð.

 

Nafnið Harpa bar sigur úr bítum í nafnasamkeppni sem efnt var til í ársbyrjun 2008. Nafnið hefur fleiri en eina merkingu; Harpa er mánuður í gamla norræna tímatalinu sem byrjar á sumardeginum fyrsta. Nafnið markar því upphaf jákvæðra tíma þegar náttúran fer að lifna við og litirnir í umhverfinu verða skarpari. Harpa vísar einnig til hljóðfærisins og tengist þannig starfseminni, auk þess sem húsið lítur út að sumra mati eins og strengd Harpa.

 

Mannvit óskar Íslendingum til hamingju með Hörpuna.