Haustráðstefna verkefnastjórnunarfélagsins - Mannvit.is
Frétt - 07.10.2015

Haustráðstefna verkefnastjórnunarfélagsins

Í dag fer fram haustráðstefna verkefnastjórnunarfélagsins á Hótel Hilton. Ráðstefnan ber yfirskriftina Verkefnastjórnun allsstaðar þar sem áherslan er á margbreytileika, bæði á vettvangi og við stjórnun verkefna. Á ráðstefnunni segja verkefnastjórar frá áhugaverðum verkefnum sem þeir hafa stýrt og ráðstefnugestir fá fræðilega innsýn í það hvernig á að fá fólk til að gera það sem við viljum að það geri.

Aðalfyrirlesarar eru Victor A F. Lamme sem er prófessor í hugrænum taugavísindum við háskólann í Amsterdam. Hann er þekktur fyrirlesari og ráðgjafi og rekur einnig taugamarkaðssetningarfyrirtækið Neurensics. Hann hefur gefið út yfir 115 ritrýndar greinar sem meðal annars hafa verið birtar í tímaritum eins og Nature, Science og PNAS. Seinni aðal fyrirlesarinn heitir Pieter Van Sluijs og er um þessar mundir verkefnisstjóri yfir stækkun Utrecht Centraal, stærstu lestarstöðvar í Hollandi. Utrecht Central er mikilvægasta járnbrautarmiðstöð landsins og stærsta lestarstöðin í Hollandi þar sem daglega fara um stöðina meira en 900 lestir. Pieter miðlar af reynslu sinni af áætlunum, gerð samninga, hvernig umhverfisþættir hafa áhrif á heildarmyndina og segja frá frmkvæmdum við mannvirkið sjálft. Auk aðalfyrirlesaranna munu íslenskir verkefnastjórar úr öllum áttum fjalla um stjórnun verkefna í störfum sínum. Allar upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast á verkefnastjornun.is