Hitaveituframkvæmdir í Ungverjalandi - Mannvit.is
Frétt - 09.07.2010

Hitaveituframkvæmdir Mannvits í Ungverjalandi

Mynd: Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Pál Kovács, vararáðuneytisstjóri þróunarmálaráðuneytis Ungverjalands, Márk Gyõrvári, borgarstjóri Szentlörinc, Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits, og Gyimothy Denes, forstjóri Pannergy, með starfsmönnum Mannvits á borstað í Szentlörinc.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Pál Kovács, vararáðuneytisstjóri þróunarmálaráðuneytis Ungverjalands, og Márk Győrvári, borgarstjóri Szentlőrinc, lögðu í gær hornstein að hitaveitu sem er hönnuð af verkfræðistofunni Mannviti fyrir ungverska einkafyrirtækið PannErgy. Hitaveitan verður sú stærsta í Ungverjalandi sem notar alfarið endurnýjanlega og umhverfisvæna orku og mun hún leysa af hólmi núverandi gashitun. Þetta er stærsta framkvæmdin til þessa í vinnslu endurnýjanlegrar jarðvarmaorku í Ungverjalandi en Mannvit hefur nú í rúm þrjú ár unnið að fjölbreyttum verkefnum vegna jarðhitanýtingar þar í landi. „Þetta er hornsteinn að verkefni sem getur valdið straumhvörfum í orkumálum, ekki bara í þessu héraði, ekki bara í Ungverjalandi, heldur jafnvel í allri Mið-Evrópu,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. „Það er ákaflega gaman að sjá hvernig Mannviti gengur hér í Ungverjalandi og hversu vel fyrirtækið starfar með heimamönnum að því að auka hlut jarðhitans,“ sagði ráðherrann ennfremur.

 

Mannvit hefur annast allar nauðsynlegar jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknir vegna  staðsetningar á  tveimur borholum og hönnun þeirra, auk þess að hafa  umsjón og eftirlit með borframkvæmdum. Vinnsluholan gefur um 25 sekúndulítra af 87 gráðu heitu vatni á yfirborði. Mannvit sér ennfremur um hönnun hitaveitunnar, gerð útboðsgagna og hefur umsjón og eftirlit með allri framkvæmdinni. Þetta er fyrsti EPCm-þjónustusamningur íslenskrar verkfræðistofu á erlendri grundu. Gert er ráð fyrir að hitaveitan í Szentlörinc taki til starfa síðla hausts.

Í fréttatilkynningu frá Pannergy segir að þetta ungversk-íslenska samstarf hafi mikla þýðingu, því sameiginlegur árangur Mannvits og Pannergy sé mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og til að stuðla að orkuöryggi innan Evrópusambandsins. Það sé mikill heiður að utanríkisráðherra Íslands hafi þegið boðið um að taka þátt í leggja hornstein að hitaveitunni í Szentlőrinc í opinberri heimsókn sinni í Ungverjalandi. Líta megi á það sem sterka vísbendingu um að ríkisstjórnir beggja landa skuldbindi sig til að mæta sameiginlegum markmiðum ESB um endurnýjanlega orku. 

 

Mannvit opnaði skrifstofu í Búdapest árið 2008 til að fylgja eftir verkefnum í Mið-Evrópu. Þar eru nú vel á annan tug starfsmanna, bæði íslenskir og ungverskir. Samhliða hefur Mannvit komið upp öflugu tengslaneti við þarlend þekkingarfyrirtæki. Í Ungverjalandi er hefð fyrir nýtingu jarðhita og þekking á jarðborunum er mikil í landinu vegna vatnsöflunar en þó einkum í tengslum við leit að olíu og gasi. Mannvit tvinnar saman reynslu heimamanna af staðháttum og sérþekkingu Mannvits á jarðvarmaverkefnum á Íslandi og víðar til að byggja upp miðstöð fyrir starfsemi félagsins á meginlandi Evrópu. Verkefni Mannvits í Ungverjalandi tengjast mest nýtingu jarðvarma en félagið hefur einnig tekið að sér verkefni á fleiri sviðum. Auk þess að sinna verkefnum í Ungverjalandi er skrifstofa Mannvits í Búdapest vel í sveit sett hvað varðar verkefni í öðrum löndum Evrópu. Þaðan þjónustar Mannvit Evrópu með verkefnum í Þýskalandi, Slóvakíu, Slóveníu, Bosníu-Hersegóvínu, Rúmeníu, Grikklandi og Tyrklandi.