Hjólaborgin Reykjavík - Mannvit.is
Frétt - 25.09.2015

Hjólaborgin Reykjavík

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur nú endurskoðað hjólreiðaáætlun borgarinnar og sett fram Hjólreiðaáætlun 2015-2020 sem ætlað er að skapa umhverfi sem hvetur til hjólreiða. Mannvit hefur veitt ráðgjöf við gerð áætlunarinnar sem er metnaðarfullt skref í að gera Reykjavík að betri hjólaborg. Áætlunin er sett fram á vef Reykjavíkurborgar um Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2015-2020. „Það var mjög gaman að fá að aðstoða Reykjavíkurborg við endurskoðun hjólreiðáætlunar. Heilmikið hefur gerst síðan hjólreiðaáætlun var fyrst samþykkt árið 2010, þeim sem nota reiðhjól reglulega sem samgöngutæki hefur fjölgað mikið og mikilvægt að halda áfram að skapa góðar aðstæður og hvetja fólk til vistvænna, hagkvæmra og heilsubætandi samgangna “ segir Þorsteinn R. Hermannsson fagstjóri hjá Mannviti.

Hjólaborgin Reykjavík

Í samræmi við stefnu Reykjavíkur­borgar um að efla vistvæna ferða­máta skipaði borgarstjórnin starfshóp í október 2014 sem hafði það hlutverk að endurskoða hjólreiðaáætlun borgarinnar frá árinu 2010. Markmiðið var að fara yfir fyrirliggjandi framkvæmdaáætlanir og gera aðgerðaáætlun til að fylgja eftir árangri sem náðst hefur og gera hjólreiðum enn hærra undir höfði í Reykjavík.

Uppbygging hjólaleiða, fleiri hjólastæði, betri merkingar o.fl.

Með Hjólreiðaáætlun 2015-2020 er sett fram heildarsýn um hjólreiðar í Reykjavík næstu árin og aðgerðaáætlun. Með framfylgd Hjólreiðaáætlunar 2015-2020 verður haldið áfram að skapa umhverfi sem hvetur til hjólreiða þannig að Reykjavík verði góð hjólaborg. Ásamt því verður farið í fjölbreyttar aðgerðir aðrar en framkvæmdir sem kalla má mjúkar aðgerðir til að fjölga þeim sem hjóla.