Þorbjörg Sandur Sjálfbært Samfélag
Frétt - 25.02.2020

„Sandur er undirstaða velmegunar“ - Hlaðvarp Mannvits

Í fyrsta þætti Hlaðvarps Mannvits sem ber heitið Sjálfbært samfélag er rætt við Þorbjörgu Hólmgeirsdóttur, jarðverkfræðing á rannsóknarstofu Mannvits. Þorbjörg segir okkur frá mikilvægi sands í nútímasamfélagi. Hann er sannarlega nauðsynlegur og nýttur miklu víðar en við áttum okkur á. Sandur er auðlind sem Íslendingar þurfa að huga að og fara vel með, en skortur á honum getur skapað ýmis vandamál. Aðgengi og framboð af sandi er gríðarlega mikilvægt fyrir Íslendinga. Í raun er sandurinn grunnurinn að velmegun okkar, eins og Þorbjörg segir okkur frá.

Hér má nálgast fyrsta þáttinn á Spotify eða hlusta á hann í spilaranum að neðan. Þættirnir eru einnig aðgengilegur í Podcasts appinu hjá Apple.

Áhugavert hlaðvarp

Sjálfbært samfélag er hlaðvarp á vegum Mannvits sem hefur verið hleypt af stokkunum. Þar er fjallað um áhugaverðar nýjungar í tækni, vísindum og verkfræði og áhrif þess á samfélag okkar. Sjálfbær þróun felur í sér áskoranir sem við fjöllum um í þessum hlaðvarpsþáttum og nálgumst viðfangsefnin frá öðru sjónarhorni en við erum ef til vill vön. 

Rannsóknir byggingarefna

Þorbjörg er fagstjóri rannsóknarstofu Mannvits en þar framkvæma sérfræðingar allar helstu prófanir, rannsóknir og greiningar byggingarefnis ásamt að veita aðstoð við framleiðslu- og framkvæmdaeftirlit. Mannvit hefur yfir 25 ára reynslu af efnisrannsóknum. Á rannsóknarstofunni eru gerðar allar hefðbundnar prófanir og margar sérhæfðar prófanir sem tengjast steinefni, steinsteypu, vegagerð, jarðtækni og bergtækni. Þessu til viðbótar eru gerðar stálprófanir og plötu-/þjöppupróf. Unnið er eftir alþjóðlegum stöðlum og áhersla lögð á fagmennsku við framkvæmd og úrvinnslu.