Húsavík Hjúkrunarheimili Arkis Mannvit
Frétt - 15.05.2020

Hönnunarsamkeppni - Hjúkrunarheimili á Húsavík

Tillaga ARKÍS arkitektar í samstarfi við Mannvit hlaut 1.verðlaun í hönnunarsamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili Þingeyinga á Húsavík.

Fyrirhugað er að reisa nýtt og glæsilegt 4400 fermetra, 60 eininga hjúkrunarheimili í hlíðinni ofan Dvalarheimilisins Hvamms. Kostnaður við bygginguna er áætlaður um þrír milljarðar króna. Stefnt er að því að útboð á verklegri framkvæmd verði auglýst vorið 2021 og að heimilið verði tekin í notkun í lok árs 2023.

Fyrstu verðlaun hlaut ARKÍS í samstarfi við Mannvit. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: „Skipulag sambýliseininga styður við heimilisbrag með vistlegum einkarýmum fyrir hvern íbúa sem snúa flest að bænum og frábæru útsýni yfir Skjálfanda og Kinnarfjöll. Starfsaðstaða er mjög góð þar sem þjónusturými eru miðlæg og vegalengdir stuttar innan hverrar deildar. Heimiliseiningar eru allar jafnstórar og hönnun þeirra auðveldar mönnun og flæði milli þeirra, þ.m.t. yfirsýn yfir heimilið í heild og starfsfólk nýtist m.a. betur á nóttunni. Heimilið er bjart, auðvelt aðgengi er út undir bert loft frá setustofum til að njóta útsýnis og veðurs og tilhögun einkarýma gerir auðvelt fyrir íbúa að rata í herbergi sín.“

Alls bárust 32 tillögur í hönnunarsamkeppnina en dómnefnd skipuðu fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins, sveitarfélaganna sem standa að uppbyggingunni og fulltrúum frá Arkítektafélagi Íslands. Verkkaupar eru heilbrigðisráðuneytið, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti úrslit samkeppninnar í gegnum fjarfundabúnað en dómnefndarálit og fleiri myndir má finna hér á vef Framkvæmdasýslu Ríkisins.

Myndir: ARKÍS