Hraunhiti í nýjahrauninu á Fimmvörðuhálsi - Mannvit.is
Frétt - 10.05.2010

Hraunhiti í nýjahrauninu á Fimmvörðuhálsi

Gísli Guðmundsson jarðefnafræðingur, Ph.D., og starfsmaður Mannvits slóst í fór með jarðfræðingum frá Háskóla Íslands ásamt tökuliði frá RÚV að gosstöðvum á Fimmvörðuhálsi í lok mars. Tilgangur ferðarinnar var að mæla hita í rennandi hrauni frá eldstöðinni á Fimmvörðuhálsi.  Hitinn var annars vegar mældur með innrauðri myndavél og hins vegar með hitavír (thermocouple).  Hitavírinn og aflestrartæki eru í eigu Mannvits.  Mælingar með hitavírum fóru þannig fram að vírinn var rekinn inn í glóandi hraun eða þar sem því var viðkomið einnig var hraun látið renna yfir hitavírinn og aflestur tekinn.

Hópurinn var þarna í lok mars þegar ný sprunga opnaðist á Fimmvörðuhálsi. Gísli og föruneyti hans voru fyrst á svæðið. Ný sprunga hreinlega opnaðist fyrir fótum þeim og væntanlega náðu þau fyrstu myndum sem til eru af sprungunni.  Hiti í hrauntungu sem kom úr aðalsprungunni og rann í átt til þeirra, var mældur þannig að hraunið var látið renna yfir hitavírinn. Hæst mældist hitinn um 1012°C.  Þetta er að mati Gísla frekar lítill hiti og bendir til þess að hraunið sé töluvert kristallað. Hraunið rann þarna á nokkurra daga gamalli gjósku og undir gjóskunni er ca 0,5 til 1 m þykkt snjólag.